27. júní 2011

posted Jun 27, 2011, 4:07 PM by Jón Pétursson
Við komum við á Lækjarbotnum föstudagskvöldinu með ísskáp sem fær að vera í fiskvinnslunni hjá Gulla og Nínu. Síðan renndum við á Vindás með girðingardót sem Nonni hafði verslað fyrir Braga bónda. Þegar við vorum komin í kotið hringdi Gulli og falaði hestakerruna til að fara með merar undir hest á laugardagsmorgun. Við fórum með kerruna og hjálpuðum þeim að smala merunum heim og tókum nokkrar myndir af Gjafari litla eins og hann heitir núna en við sjáum hann næst seinna í sumar þegar Víma kemur frá graðhestinum en hún er nú á leið undir Blæ frá Torfunesi.
 
Holla, Víma og Gjafar litli
 
Á laugardagsmorguninn kom Valli í Flagveltu og fékk lánaðan hjá okkur tökubásinn en það átti að sóna merar úr einu graðhestahólfinu hjá þeim. Við fórum með hestakerruna yfir á Vindás og sóttum litla John Deere og fengum okkur kaffisopa í leiðinni en Magga og Bragi komin í sumarfrí - ekki leiðinlegt hjá þeim. Við fórum svo inn í Mið-Setberg og Nonni sló og rakaði flatirnar en frúin fór um á massanum og safnaði saman lurkunum úr grisjuninni frá því í vor.
 
Fyndið að sjá að lurkarnir voru flesti búnir að róta sig þar sem þeir lágu ofan á grasinu, takið eftir hvítu rótaendunum á þeim
 
Um miðjan dag renndum við á Selfoss á Landsmót Fornbílaklúbbsins og skoðum flotta fornbíla og fórum svo í Hveragerði á blómadaga og keyptum þar nokkrar jarðaberjaplöntur. Um kvöldið tókum við svo smá törn í trjáklippingum.
 
 
Nonni tók bara myndir af jeppum á fornbílasýningunni eins og venjulega - Willys eins og hann er að gera upp og Land Rover eins og fyrsti bíllinn hans
 
Þá var 26/06 kominn - til hamingju með daginn Fanney Helga skvísan okkar orðin 22 ára tíminn er svo fljótur að líða.
Bjössi og Gestur í Holtsmúla 4 kíktu til okkar í kaffi og spjall.  Holla sagaði niður og safnaði saman trjágreinum sem við klipptum kvöldinu áður.
Eiður kom um miðjan dag og kíkti á hófinn á Þrumu en hún er með stig sem þurfti að hreinsa og klippa til, við fórum svo á eftir Eið niður í Helli og sýndi hann okkur Herborgu en hún er búin að vera hjá honum í eina tvo mánuð og er aðeins farin að taka töltspor en fer mest á valhoppi en grípur í tölt og smá lull sem bendir vonandi til þess að töltið sé að koma hjá henni. Það var ákveðið að hún skildi vera mánuð í viðbót hjá Eið. Hún er með frábært geðslag og svo kjörkuð og traust að Eiður notar hana þegar hann þarf að lóðsa hestahópa yfir Ytri-Rangá.
 
Herborg frá Lækjarbotnum undan Hersveini og Tinnu frá Lækjarbotnum
 
Eftir kaffisopa og spjall hjá Önnu og Eið renndum við í bústaðinn og Holla setti niður jarðaberjaplönturnar síðan  tókum okkur saman.
 
Holla setur jarðaberin í gróðurkassa
 
Við komum svo við á Vindási og sóttum lamir sem þarf að skipta í vikunni og líka á Lækjarbotnum og sóttum fisk - síðan var bara að hundskast heim því helgin var búin.
 
Comments