27. júní 2010

posted Jun 27, 2010, 3:10 PM by Jón Pétursson
Á fimmtudagskvöldið fórum við upp í Grafarvog til Gísla Bragasonar og sóttum dúkkuhús sem hann vildi losna við úr garðinum og átti að fara austur að Vindási. Nonni keyrði um bæinn á föstudeginum með húsið á pallinum og þegar hann var spurður hvað stæði til sagðist hann vera að fara með fjölskylduna í útilegu og nennti ekki að draga á eftir sér einhvern kassa heldur væri hann á húsbíl::)
 
"Húsbíllinn" 
 
Á föstudagskvöldinu byrjuðum við á Vindási, hentum húsinu inní garð einnig hafði Nonni keypt traktorssæti í gamla Deutzinn fyrir Vindásbændur svo hægt væri að nota hann í heyskapinn, það gamla var alveg hætt að fjaðra og orðið mjög slitið.  Á leiðinni út í Mið-Setberg fórum við framhjá túnunum sem við heyjum í hestana og það var þá fullt af gæs eins og gjarnan á þessum tíma þá kemur gæsin með ungana upp af ánni og gæðir sér á ábornu grasinu. Við eltum að gamni eitt par með tvo unga og náðum öðrum unganum foreldrunum til mikillar óánægju sem hvæstu og börðu vængjum á meðan við vorum með ungann.
 
Þess gæti endað í kistunni hjá okkur í haust!
 
Nonni vaknaði snemma á laugardaginn skellti sér út í skemmu til að smíða mælistiku á ámoksturstækin á stóra Dýrinu sem lætur vita hvenær skóflan er lárétt.
Eftir hádegið skelltum við okkur á landsmót Fornbílaklúbbsins á Selfossi - það var margt um manninn og flottir bílar og allnokkrir sem maður hefði viljað taka með heim.
 
Willys CJ2A 1946 módel eins og sá sem Nonni er að gera upp - hann á mikið verk fyrir höndum áður en hann verður svona fínn 
 
Péur var að vinna á föstudaginn svo hann kom með rútunni á Selfoss á laugardeginum og hitti hann okkur á landsmótssvæðinu og kom svo með okkur austur. Á bakaleiðinni komum við við í Heysholti hjá Guðmundi og Lóu, Guðmundur hafði beðið Nonna að kíkja við til að spá með honum í gerðið sem þau ætla að koma upp í sumar og tilvonandi heyskap, frá Heysholti rúlluðum við á Vindás og notuðum tækifærið og rúðum Orra orystuhrút áður en honum var sleppt í hagann. 
 
Sunnudagurinn var tekinn snemma, Nonni fór að skipta um stýrisenda á stóra Dýrinu og mátaði líka ámoksturstækin á festinguna sem hann hafði smíðað fyrir þau á Massann - að sjálfsögðu passaði allt fullkomlega og nú er bara beðið eftir varahlutunum í glussadæluna til að geta farið að nota tækin. 
Á meðan fóru Holla, Pétur og Gummi í að plasta sprautunarklefann. Nú er að verða komið að því að sulla á Benzann.
 
 
Tækin fyrir utan gálgann komin á Massann
 
Við komum svo við á Lækjarbotnum um kvöldmatarleitið á leið í bæinn og tókum Tóta með okkur heim.
 
 
Comments