Nonni fór í vikunni til ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og fékk lánaðan kvarðaðan jarðvegshitamæli til að mæla hitastig í könnunarholunni sem við grófum á Vindási um síðustu helgi.
Við fórum svo á laugardagsmorguninn niður að Þjórsá og mældum hitann í uppsprettum sem eru við árbakkann. Þar var ein uppspretta sem mældist 22,5°C og runnu um 8-10 l/sek frá henni.
Bragi stingur hitamælinum í eina lindina, sú stærsta sést nokkrum metrum lengra við bakkann þar sem bólan er á vatnsyfirborðinu
Holla og Magga fóru á tónleika á Laugalandi sem haldnir voru til styrktar Árna Páls í Riddaragarði sem veiktist alvarlega fyrir stuttu, mikið var gaman að sjá samhug sveitunganna en rúmlega 300 manns mættu og mikið sungið. Stína kom með Anítu Evu að Laugarlandi og skildi hana eftir hjá okkur - fannst þeirri stuttu ekki leiðinlegt að sjá afa gamla syngja. Nonni gróf á meðan þrjár holur til viðbótar í kringum holuna sem grafin var um síðustu helgi til að einangra hitasvæðið og gróf svo um 5 metra djúpa holu vestan við hana sem reyndist 52,5° mun heitari en sú sem grafin var síðustu helgi en hún mældist 32,5°C með mælinum góða. Hann náði aðeins að rífa upp klöppina og þar glitti í vatn sem náði þessu hitastigi.
Magga og Aníta kíkja á Gumma sem er ofan í 52°C holunni þar sem hann boraði með grjótbor til að koma mælinum ofan í hraunið
Svæðið sem holurnar eru á er rétt hægra megin við fjárhúsið sem er fyrir miðri mynd
Á sunnudaginn fórum við ásamt Gulla, Nínu og Sigga inn í Laugar til að flokka nýja árganginn af bleikjunni - það gekk eins og í sögu enda vant fólk á ferð J. Eftir flokkunina renndum við í kaffi á Botna skoðuðum meðal annars merina sem Tóta var að fá í afmælisgjöf frá fjölskyldunni, hún heitir Hófi og er frá Litla Garði fallegasta meri - til hamingju með hana Tóta!
Seinnipartinn fórum við að Vindási og fór Nonni með Braga niður á fjárhústún og yfirborðshitamældu þeir stórt svæði í kringum heitustu holuna og fundu annan stað alveg við fjárhúsið sem gaf fyrirheit um að heitara væri undir og í 5 metrum komu þeir niður á hraun sem þeir náðu að grafa um hálfan metra ofaní og spratt þá fram 56° heitt vatn - ekki leiðinlegt!
Það rauk vel úr holunni með 56°C vatninu, hún er aðeins vestar en hinar holurnar rétt við fjárhúsið
Nonni kíkti svo aðeins á Willysvélina og var nú með ventlaþvingu til að taka ventlana úr henni, tveir þeirra eru stífir í og þarf að rýma ventlastýringarnar svo þeir lokist almennilega.
Eftir kvöldmat fórum við svo í bæinn og vorum bara ánægð með helgina...
|