27. febrúar 2011

posted Feb 27, 2011, 1:18 PM by Jón Pétursson
Veðrið var frekar leiðinlegt núna um helgina, það var þvílíkt rok aðfaranótt laugardags að við vöknuðum upp við það þegar gamla grillið fauk á hliðina en það er búið að standa í kverkinni á bakvið hús án þess að hreyfast í óratíma. Áttin var vestlæg og sem er frekar sjaldgæft hjá okkur en þar sem að vindmælirinn er ennþá bilaður erum við ekki með tölur um vindstyrkinn.
Á laugardaginn gekk á með éljum og allt varð hvítt en svo á sunnudag þiðnaði og byrjaði að rigna.
Við vorum annars bara nokkuð dugleg þessa helgi, náðum að koma niður gólfefninu á svefnloftið og þá eru bara eftir að setja á stigann og ganga frá frágangslistum og svoleiðis
 
Gólfefnið komið á svefnloftið
 
Í vikunni var gamla merin á Vindási hún Bibba felld en henni hefur hrakað undanfarið og var svo komið að hún var greinilega ekki að ná sér. Bibba var síðust af gömlu Vindáshrossunum.
 
Bibba frá Vindási með Tímon
 
Við eigum tvær merar undan Bibbu þær Þrumu og Eldingu sem eru þriggja og sex vetra, svo á Stína frá Vindási systkinin Tímon og Púmbu sem eru eins og tveggja vetra þannig að sú gamla lifir vonandi áfram.
 
 
Comments