26. september 2010

posted Sep 26, 2010, 1:00 PM by Jón Pétursson
Við tókum langa helgi núna, fórum austur seint á miðvikudagskvöldið. Bragi bóndi varð 60 ára á þriðjudaginn svo við komum við á Vindási með smá pakka, Nonni hafði teiknað skopmynd af honum sem vakti mikla kátínu þó að húmorinn sé pínulítið innansveitar en það er alltaf af nógu að taka þegar Bragi er annarsvegar.
Á fimmtudaginn fórum við í réttirnar í Áfangagili og þar var margt um manninn, kjötsúpan var góð að vanda, og allir kátir enda var veðrið með besta móti. Við tókum að okkur að keyra fé til byggða fyrir Guðlaug og Jónínu á Botnum og þurftum að fara eina aukaferð svo allt féð kæmist til heim. Menn töluðu um að þeim þætti féð almennt koma rýrt af fjalli en það kemur betur í ljós þegar viktarseðlarnir liggja fyrir.
 
Féð rekið í réttirnar - á hinni myndinni er Gulli bóndi og á bakvið hann sjást Eiður í Helli, Kjartan í Hjallanesi, Billi á Botnum og Siggi í Hrauntá
 
Föstudagurinn fór í ýmiskonar stúss, við settum nýja bremsubarka í hestakerruna og fórum svo með hana á Selfoss í skoðun og versluðum. Pétur kom svo austur um kvöldið með Þórhalli og var tekin törn í Benzanum helgina.
Laugardagurinn fór í að klára að smíða og mála fláningsborðið, Pétur hamaðist í Benzanum og naut aðstoðar Nonna og Þórhalls og Holla skellti sér á hestbak. Valli og Helga komu í heimsókn en þau eru að spá í möl í planið fyrir utan hjá sér og komu til að kíkja á planið hjá okkur. Beta, Kata og Hekla komu líka í heimsókn og léku Hekla og Myrka sér saman meðan spjallað var yfir kaffibolla.
Um kvöldið var svo veisla á Vindási voru þar samankomin voru börn, tengdabörn, barnabörn og tengdir. Maturinn var ekki af verri endanum, nautalund, fylltar grísalundir með humri, kjúklingabringur, lambalæri, allskonar meðlæti og svaka terta í desert. Sunnudagurinn fór í að bolta fláningsborðið niður og staðsetja talíuna sem notuð verður til að hífa skrokkana úr skinninu - nú er allt að verða klárt fyrir heimaslátrunina.
 
Fláningsborðið tilbúið fyrir heimaslátrunina
 
Við náðum líka að sprauta fylligrunninn á Benzann og nú brosti Pétur hringinn því nú er hann farinn að líkjast bíl aftur. Næst komum við við í hesthúsinu hjá Valla og Helgu og var spáð og spekulerað hvernig væri best að taka steypukant sem afmarkar ganginn og stíurnar og hefur verið til leiðinda þegar hrossin fara inn í og úr stíunum, fannst góð lausn á því áður en langt um leið - eins og sagt er betur sjá augu en eyra. Síðan buðu þau í kaffi og nýbakaðar kökur.
Eftir kvöldmat fór Pétur svo í bæinn með Þórhalli og eftir frágang í bústaðnum fórum við líka.
 
 
Comments