Á laugardagsmorgun fórum við í að smala fénu með bændunum á Vindási og flokkuðum gemsana, sláturrollur og hrútana frá og keyrðum í lambhúsið heima við bæ en þessa helgi var skyldusmölun og hrútadagur í Landsveit.
Þegar því var lokið renndum við með Guðlaugi, Jónínu,Sigga, Þórunni, Þórhallri, Pétri, Möggu og Braga í heimsókn til Ástu Beggu, Gísla og dætra að hrossaræktarbýlinu Miðási í Ásahreppi, en þau voru með opið hús á laugardaginn. Á leiðinni komum við við á Sumarliðabæ og kíktum á sumarhús sem Siggi og Þórunn á Lækjarbotnum voru að festa kaup á, þau ætla sér að flytja upp það að Lækjarbotnum og setja það niður sunnan við bæinn.
Eins og búast mátti við er aðstaðan að Miðási stórglæsileg, í nýju skemmunni er pláss fyrir fjórtán hross og kindurnar hennar Ástu Beggu sem eru fjórar, þar er einnig hey- og spónageymsla, þvottaaðstaða og hitalampi, kaffistofa, hnakkageymsla. vélageymsla og reiðhöll og fyrir utan er nýjung sem maður hefur ekki séð áður en það er vaðlaug fyrir hesta. Einnig hafa þau byggt nýtt íbúðarhús sem var glæsilegt í alla staði og mikið lagt í öll smáatriði, þau hafa einnig ræktað tún og fleira.
Úr hesthúsinu, séð inn að kaffistofunni. Gangarnir eru breiðir og vélmokaðar stíur - Reiðhöllin er björt og rúmgóð
Á sunnudaginn fórum við í að dytta að girðingunni í kringum bústaðinn og að því loknu fórum við til Helga og Regulu í Austvaðsholti og ætluðum að kaupa af þeim morflekkótta gimbur - ekki leist okkur á gimbrina en festum kaup á gráum lambhrút í staðinn.
Einnig kíktum við á Lækjarbotna en þau voru að taka í notkun fiskvinnslustöðina - mikil kátína á bænum! Innilega til hamingju með hana glæsileg í alla staði.
|