Nonni hefur verið í sveitinni vikuna hundlasinn með grísapest eða eitthvað. Holla kíkti austur á þriðjudaginn og fór með Möggu á Vindási í reiðtúr í frábæru veðri og kíktu þær í kaffi yfir til Margrétar í Hellum. Holla kom svo aftur á fimmtudaginn og þá tókum við Kerru og lónseruðum hana í gerðinu, settum á hana hnakk og Holla fór í reiðtúr á henni. Það gekk ótrúlega vel miðað við að hún er tiltölulega lítið gerð og hefur verið í folaldseign og ekki hreyfð í að verða tvö ár.
Nonni fór í vikunni með Gulla á Botnum til Finns í Vesturkoti og sóttu þeir Vímu frá Lækjarbotnum sem sónaðist með fyli undan Sædyni, Tara frá Lækjarbotnum er þar líka en hún sónaðist tóm þannig að hún fékk að vera áfram hjá Sædyni.
Á föstudaginn smelltum við okkur á Vindás og hrærðum með Braga og Möggu steypu í valtarann sem við erum að smíða með þeim
Holla og Bragi hræra steypuna og Magga og Pétur taka á móti og hella niður í valtarann sem stendur þarna upp á endann
Holla fór með Eddu og Bob í bíltúr á laugardeginum og skoðuðu Heklusetrið á Leirubakka og Papahellana í Hellum, komu við í Áfangagili og Réttarnesi svo eitthvað sé nefnt.
Fanney kom austur með Línu, sem komin er heim en hún var skiptinemi einhverstaðar í Suður-Ameríku, á laugardeginum og fóru þær í langan reiðtúr á Lúkasi og Hyllingu.
Nonni kláraði að smíða hliðin í aðhaldið utan við hestagerðið og festa þau upp, hann sléttaði líka landið í kringum gerðið þannig að nú er kominn ágætis vegur utan með því að hestastykkinu.
Á sunnudaginn fórum við eftir hádegið og flokkuðum bleikju með Lækjarbotnafólkinu en það er aldrei meira að gera í bleikjubransanum en núna.
Nonni og Gulli háfa bleikju, Nína og Holla sjá um flokkarann og Billi fylgist með
Holla fór svo í bæinn á sunnudagskvöld með Pétur, Eddu og Bob en þau fara heim til Skotlands á mánudag.
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >