26. febrúar 2009

posted Feb 26, 2009, 5:45 AM by Jón Pétursson   [ updated Mar 9, 2009, 9:53 AM ]
Um helgina vorum við viðstödd vígslu Rangárhallarinnar á Hellu, glæsilegt mannvirki og verður án efa gríðarleg lyftistöng fyrir hestamennsku á svæðinu. Málið er okkur skylt því Nonni sá um forhönnun og alútboð á mannvirkinu á meðan hann var hjá Hnit.
Við kíktum á útiganginn og braggast hann vel, folöldin stækka ört og erum við að spá í að taka Þrumu undan á næstu vikum til að gefa Bibbu séns á að byggja sig upp fyrir það að hún kastar í sumar. Við leyfum Von að ganga undir Kerru eitthvað áfram fram á vorið þar sem að mamma hennar á ekki að vera fylfull.
 
  Kerra, Von og Þruma - svo grillir í Hyllingu hennar Helgu lengst til hægri
 
Á mánudaginn var prófað að setja hnakkinn á Loga og láta hann svo hlaupa með hann, hann reyndi að losa sig við hann í fyrstu og jók svo ferðina í hverjum hring og þegar hún var orðin svo mikil að maður var hræddur um að hann slasaði sig í gerðinu var ekki annað að gera en að stöðvaða hann, eftir það reyndi hann ekki meira við hakkinn og virðist sætta sig við hann. Nú er hann orðinn svo spakur að maður getur með lagni gengið beint að honum í gerðinu og tekið hann og strokið og lyft upp löppum, einnig teymist hann vel. 
Til stóð svo að járna hann í fyrsta sinn á þriðjudaginn en það frestaðist fram á miðvikudag, það gekk svo ótrúlega vel með fyrri framlöppina en þegar kom að hinni ákvað hann að nóg væri komið og lagðist niður á hnén með framlappirnar þegar löppinni var lyft en við það strekktist á tökumúlnum sem herti svo að að það leið yfir hann og hann lognaðist út á hliðina.  Við urðum að losa um múlinn þannig að hann gæti náð andanum og staðið upp og þá var það með þvílíkum látum að allt ætlaði um koll að keyra en sem betur fer þá héldu bæði múllinn og böndin, þegar svona hafði gengið nokkrum sinnum ákvað hann loks að gefast upp og við komum skeifunni undir seinni framlöppina. Afturlappirnar var svo ekkert vandamál með, hann stóð eins og stytta á meðan þær voru járnaðar.