26. desember 2013

posted Dec 26, 2013, 5:50 AM by Jón Pétursson
Gleðileg jól og farsælt komandi ár kæru lesendur frá fjölskyldunni í Mið-Setbergi.


Desember er búinn að vera með nokkuð hefðbundnu sniði hjá okkur í sveitinni, þann 1. desember var árleg aðventuhátíð á Laugalandi og í þetta sinn mætti Holla með félögum sínum í ullarvinnslunni og sýndu þær gamla handbragðið við ullarvinnslu.

Holla sýndi fléttaða ullartauma og hestapeyslur - á hinni myndinni eru rokkarnir og kembivélin tekin til kostanna

Holla hefur annars verið óstöðvandi í ullarvinnslunni og er búin að kemba heil ósköp af ull og situr nú við rokkinn og spinnur band til að prjóna úr. Reyndar er fyrsta peysan úr handspunnu garni af okkar kindum tilbúin og var Holla búin að lofa Þóru hans Péturs að hún fengi hana fyrir aðstoðina við að rífa ullina af gærunum þannig að hún var gerð klár í jólapakkann.

Laugadagin 14. desember fór Holla með Eið á jólamarkaðinn í reiðhöllinni á Slefossi og hjálpaði til við að selja hangikjötið góða frá Hellisbúanum, búið var að auglýsa að hjóninn í Hrólfsstaðahelli yrðu á markaðnum og því ekki laust við að það væri undrunarsvipur á sumum þegar Eiður var mættur með nýja kerlingu en Anna var reyndar á markaðinum á Lækjartorgi á sama tíma. 

Þann 15. desember hjálpuðum til við að hleypa kindunum til hrútanna á Vindási.

Við kláruðum inniaðstöðu fyrir hrossin niðri í fjárhúsi, við settum upp tvær jötur þanngi að nú getum við tekið inn hross ef svo ber við.

Holla passar að allt sé nú nógu vel gert hjá karli

Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur á Vindási hún Lady sem er bordercollie tík sem Guðmundur stórbóndi fékk sér. 

Myrka og Lady sprella í snjónum

Nonni hefur haldið áfram með uppgerðina á Zetor og er nú búinn að taka kæli- og eldsneytiskerfið í gegn, ekki var vanþörf á allt fullt af drullu.

Comments