25. október 2010

posted Oct 25, 2010, 4:26 PM by Jón Pétursson
Á föstudaginn fórum af stað í sveitina um kvöldmatarleytið en nóg lá fyrir að gera þessa helgina eins og sumar aðrar.  Við byrjuðum á að stoppa á Lækjarbotnum með tóma kassa fyrir Nínu og Tótu undir kanínuull. Þegar komið var í bústaðinn var hann skítkaldur, allir ofnar á sumarstillingu en frost og funi úti svo að inni voru ekki nema 10° inni sátum í kuldagöllum meðan ofnarnir voru að ná upp hitanum hjá okkur.
Fórum svo um kvöldið skipulega yfir Fjárvís-bókhaldið og merktum hjá okkur ær sem ekki hafa verið að gefa góða gerð eða litlu hafa skilað til að hafa hjá okkur þegar við veljum ær til að fara í sláturhús.
 
Laugardagurinn var tekinn snemma og hagarnir á Vindási smalaðir og féð rekið heim í hlöðu og svo var farið í að flokka líflömbin, hrútana og sláturrollur frá.
 
Féð rennur upp með Þjórsá og beina leið heim í tún 
 
Í miðri flokkun kom Svenni vinnufélagi Nonna ásamt Sveinbjörgu og börnum í smá sveitaheimsókn, við tókum smá pásu á flokkuninni og fórum með þau einn hring, notuðum tækifærið til að reka hrossin heim í gerði og krakkarnir fengu aðeins að klappa og skoða þá áður en þeim var hleypt út í haga, en þeir voru orðnir hálf vatnslausir í reiðhestahólfinu en allt vatn í því var frosið eftir nóttina. Að lokum renndum við með þau í bústaðinn í smá kaffisopa. 
Pétur vann í benzanum á meðan við flokkuðum kindurnar en nú styttist óðum í endanlega sprautun.
Eftir flokkunina buðu Magga og Bragi okkur í kvöldmat og eftir matinn sorteruðum við hrútana í tvö hólf, lambhrútar í öðru og fullorðnir í hinu og slepptum rollunum út aftur.
 
Fyrripartur sunnudags fór í að saga frampartana niður í súpukjöt, grillsneiðar og kæfu og að vakúmpakka svo öllu saman. 
Við fórum svo niður í Hrólfsstaðahelli að taka út merarnar hjá Eið, Elding er farin að taka töltsporið eftir að Eiður tók skeifurnar undan að framan og reiknar hann með að eftir 2-3 vikur verði hún komin með gott vald á því. Herborg er komin með gott jafnvægi á brokki og feti og góð í taumi og stutt í töltið enda standa eðlistöltarar að henni.
 
Elding og Herborg 
 
Herborg fór með okkur til baka í hagann á Vindási en hún var hætt að sýna framfarir enda bara á fjórða vetri og var ákveðið að hún fengi frí framyfir áramót. Báðar eru þær vel viljugar, þægar og samvinnuþýðar og er Eiður viss um að þær verði báða feikna góðar.
Seinnipartinn gerðum við inniaðstöðuna í fjárhúsinu klára fyrir hrossin með vítamíni og salti og svo var farið í bæinn.
 
 
Comments