25. júní 2012

posted Jun 25, 2012, 4:47 PM by Jón Pétursson   [ updated Jun 26, 2012, 4:04 AM ]
Við vorum frekar snemma á ferðinni á föstudaginn og hittum Guðlaug á Landveginum og bauð hann í kaffi á Lækjarbotnum, Jónína hafið farið í blómaleiðangur uppá Skeið var pallurinn við húsið hjá þeim fullur af blómum. Hún gaf okkur slatta til að setja niður við bústaðinn. 
Nonni var laugardaginn í skurðgreftri en hann mokaði frá skemmunni að dæluhúsinu og upp í skúr upp á Vindás eða um 500m - grafan reyndist virkilega vel eftir viðhaldið undanfarnar vikur.

 
Skurðurinn kominn upp að brekkunni við Vindás - á hinni myndinni er verið að gera klárt til að drag út rafmagnskapalinn
 
Holla tók því rólega og bakaði flatkökur og kleinur með Möggu og sólaði sig í blíðunni. 
Á sunnudaginn gróðursetti Holla blómin og við fórum síðan yfir á Vindás og Nonni byrjaði að rífa beltið úr rúlluvélinni en við eru að yfirfara hana fyrir heyskapinn þ.e. fara yfir legur og rétta stangirnar í beltinu. 
Eftir hádegi flokkuðum við eitt bleikjukar í Laugunum með Lækjarbotnaliðinu og fórum svo í kaffi á Botna. Seinnipart fórum við með Möggu og Braga og sóttum Abel og Eldingu í hestagirðinguna og fórum með þau til Eldhesta í Hveragerði en Sigurjón í Fellsmúla er búinn að fá þau lánuð til að taka með í langferð - við erum spennt að sjá hvort að merin opnar sig á töltinu í ferðinni.
Við hittum Sigurjón, sem var nýkominn frá vígslu nýs biskups, við nýju aðstöðuna sem Eldhestar eru búnir að byggja upp við Hveragerði - stórglæsilegt hjá þeim í alla staði.
 

Reiðhöllin er björt og snyrtileg og í henni er gott pláss og sæti fyrir 180 manns - á hinni myndinni sést inn í hesthúsið

Eldhestar taka á móti hópum í höllina og eru með öðruvísi sýningu, það er ekki bara sprautað um á yfirferðatölti heldur er sýnd saga notkunar íslenska hestsins - allt frá gömlu hestalestunum með klyfjuðum hestum að reiðmennsku í söðli.
Eftir kvöldmatinn fórum við með Möggu og Braga og drógum út hitaveiturörið frá dæluhúsinu upp að Vindási, statífið sem Bragi smíðaði á sturtuvagninn fyrir rafmangskapalinn og hitaveiturörið virkaði meiriháttar vel. 
Við vorum orðin vel lerkuð þegar við komum í bæinn eftir miðnættið...

Comments