25. apríl 2011

posted Apr 25, 2011, 3:02 PM by Jón Pétursson
Vikan var fljót að líða í sveitinni og nóg að gera. Veðrið var reyndar hundleiðinlegt - ýmist rok og rigning eða él og slydda.
 
Við vorum passlega farin að lofa vori þegar allt snjóaði á kaf... 
 
Við flokkuðum féð, það sem á að bera inni í hlöðu og það sem verður úti við fjárhúsið og bólusettum og svo fór Bragi í að rýja gemsana líka.
 
Holla, Gummi, Magga og Bragi við rennuna góðu, Sverrir, Villí og krakkarnir þeirra sáu um að reka inn í hana
 
Eftir að hafa sótt hestana í bæinn á þriðjudag var aðeins skottast á hestbaki. Nonni þurfti reyndar að vinna eitthvað á Laugarvatni í vikunni og svo stoppaði símninn náttúrulega ekki hjá honum en við vorum annars dugleg í frágangi í bústaðnum og settum áfellur og lista þar sem vantaði - nú vantar bara herslumun og smá efni til að klára.
 
Myrka var duglega að hjálpa við smíðina, hún stal öllum bútum sem hún náði í og bar þá í bælið sitt og nagaði þá til. 
 
Nonni kláraði að sprauta skófluna og smádót á ámoksturstækjunum á Massann sem hann náði ekki að klára um síðustu helgi þar sem að lakkið kláraðist. Hann fór líka niður í Neðra-Sel til Jóa og heflaði heimreiðina heim að bænum sem er nú eins og malbikuð. Hann fór líka í bíltúr á Votamýri á Skeiðum og kom svo við hjá Atla og Hafdísi í Geldingaholti og sótti þangað verkfæri.
Við fórum svo á laugardaginn með Gulla og Nínu niður í Neðra-Sel til að mynda merarnar sem þau eru með í tamningu þar, þær eru Jódís undan Hágangi, Oddrún undan Þóroddi, Viðja undan Forseta og Hugljúf undan Hróðri. Svo eru þau reyndar líka með Sigurrós undan Orra og Kóral undan Sæ í tamningu hjá þeim en Sigurrós átti að fara á sýninguna í Ölfushöllinni þá um kvöldið þannig að hún var í hvíld fyrir það, Kóral höfðum við séð bæði í Rangárhöllinni og Ölfushöllinni.
 
 

Jódís frá Lækjarbotnum

      

Oddrún frá Lækjarbotnum

 

Viðja frá Lækjarbotnum

 

Hugljúf frá Lækjarbotnum

 
 
Fanney og Pétur komu ásamt vinum sínum einnig kom Þór pabbi Hollu og Anna konan hans í skottúr í sveitina og fórum við með þau hring og sýndum þeim bústofninn. Stína, Trausti og Aníta Eva voru á Vindási um helgina og fengum við Trausta sem er að læra skógarfræði til að koma í heimsókn með keðjusög og grisja með okkur í skóginum inni í Mið-Setbergi - hellingur sem fékk að fara allt uppí sex metra tré.
 
Trausti er vígalegur við grisjunina 
 
Við erum þá komin með helling af græðlingum bæði af keisaraösp, alaskavíði og viðju sem við þurfum að koma niður í vor - stærstu trén brytjuðum við niður í eldivið.
 
Við fengum að fara með Tímon hennar Stínu sem er á öðrum vetri í reiðkotið hjá Guðlaugi og Jónínu á Lækjarbotnum í smá tamningu - ekki gaf hann sig nú alveg eins og við vildum, hann er með skap eins og systur hans en vorum nokkuð kát með hann - þetta verður líklega feikna reiðhestur og fer um á öllum gangi. Við slepptum reiðhestunum Garpi og Lúkasi út í haga eftir helgina og tökum þá ekki í bæinn f.e. eftir næstu helgi - okkur fannst ekki taka því að keyra með þá í bæinn fyrir þessa þrjá daga fram á næstu helgi.  
Nú styttist í sauðburð á Vindási og er frúin orðin frekar spennt að sjá hvað kemur þetta árið en við sæddum fimm kindur með grábotnóttum hrút og verður spæling ef ekki kemur ein grábotnótt gimur undan einhverri þeirra.  
 
Comments