25. apríl 2010

posted Apr 25, 2010, 2:59 PM by Jón Pétursson   [ updated Apr 26, 2010, 2:45 PM ]
Pétur og Nonni fóru austur á miðvikudagskvöld en Holla fór á tónleika í bænum þá um kvöldið með karlakór Rangæinga og fékk síðan far með Möggu og Braga austur. 
Fyrr í vikunni höfðu Nonni og Pétur og fylltu hestakerruna af vörubrettum sem fóru með austur til að stía af rollurnar ef við þurfum að hafa þær inni fram yfir sauðburð.
Öskumistur var yfir öllu alla dagana og kom nokkuð af ösku á diskinn sem við settum út en þó ekkert sem við þurfum að hafa áhyggjur af. 
 
Fimmtudagurinn var tekinn snemma, við tókum brettin úr kerrunni og sóttum trippin í hagann - þ.e. tveggja vetra merarnar Þrumu og Von og Tímon hennar Stínu á Vindási sem er á fyrsta vetri - og fórum með þau niður að Lækjarbotnum. Þau fengu að vera í hesthúsinu á Botnum fram á sunnudag í einskonar leikskóla, merarnar voru lónseraðar í reiðkotinu, mýldar og bundnar á staur og látnar taka á en Tímon litli var að koma í hús í fyrsta skipti svo það var farið rólega í guttann en tækifærið notað og Gulli fenginn til að örmerkja hann.
 
Á fimmtudagskvöldið renndu Holla og Pétur í bæinn það var vinna og skóli á föstudeginum en Nonni var einn að dúlla sér í sveitinni og fór meðal annars og sótti hlass af hrauni og keyrði í slóðann að vélaskemmunni og tók svo til í skemmunni og hélt áfram með tamninguna á trippunum.
 
Laugardagurinn fór að hluta í að vinna í Bensanum og svo í tamningu á trippunum og svo var litið eftir kindunum en ennþá er sauðburður ekki byrjaður.  Um kvöldið var okkur boðið í saltað hrossasaltkjöt á Botnum - snilldargott kjötið frá Eið í Helli. Á leiðinni heim komum við við hjá nágrönnum okkar þeim Betu og Grétari og skoðum nýjasta sveitungann en þau voru að fá sér litla hvíta Snowser tík 4. mánaða, Holla hefði getað setið á gólfinu og knúsað hana til morguns - hún er algjört æði.  
 
Sunnudagurinn fór í bakstur hjá Hollu með Möggu á Vindási en þær bökuðu um 300 flatkökur og slatta af kleinum. Nonni og Pétur unnu í Bensanum en síðan voru trippin sótt niður á Botna og þeim sleppt í hagann.
Eftir að hafa gengið frá í bústaðnum fórum við og settum rúllu á pallinn og renndum svo á Botna og sóttum skammt af bleikju sem við tókum með í bæinn - helgin búin eina ferðina enn...
 
Comments