24. október 2013

posted Oct 24, 2013, 5:14 PM by Jón Pétursson
Enn og aftur er frúin ekki að standa sig í dagbókarfærslunum - spurning hvort hún fær að halda jobbinu ef svona heldur áfram. 
Við höfum annars haft í nógu að snúast, þann 26. september fórum við Landréttir í Áfangagili og keyrðum eins og oft áður fé fyrir Lækjarbotana niður í sveit. Veðrið var gott aðeins smá úði á tímabili.

 
Það var bæði margt fé og margt um manninn í réttunum

Þann 28.september kláruðum við að taka upp kartöflurnar - það hafði aðeins frosið nóttina áður en það kom ekki að sök. Uppskeran var heldur slök, sérstaklega í gullauganu og rauðu kartöflunum en premier-inn kom ágætlega út.


Það var blíðuveður og fallegt að líta yfir Þjórsánna til fjalla

Þann 5. október fórum við ásamt krökkunum okkar og Vindásliðinu og smöluðum heimahagann og komum fénu í hús.  Síðan voru valdar lífgimbra og flokkað frá það sem átti að fara í sláturhús og í þann 6. okt fóru 200 stk aðalega hrútlömb í sláturhúsið. Meðalviktin þetta árið hvar heldur lakari en undanfarin ár en kjötið flokkaðist í betri flokka en oft áður.

Búið að smala fénu í réttina - það eru Sindri og Fanney sem pósa svona flott á myndinni

Litasýning fjárrækarfélagsins Lits var haldin í Árbæjarhjáleigu sunnudaginn 6. október og var fé frá fleirri bæjum en nokkru sinni og margt um manninn - jafnvel þó að við mættum ekki með fé þetta árið!

 
Gimbrarnar eru á myndinni vinstra megin og hrútarnir á hægri myndinni. Í ár sigraði Sigurjón í Fellsmúla með móflekkótta, blesótta og arnhöfðótta gimbur og Siggi á Lækjarbotnum sigraði hrútaflokkinn með golsóttan hrút.

Þann 12. október slátruðum við heima og eins og áður voru það við, Árni, Pétur og Þóra, Trausti og Stína, Sverrir og Villí, Bragi, Gísli og Gummi þannig að það var nógur mannskapur þetta árið og tók hún fljótt af. 


Þóra hans Péturs stóð sig eins og hetja en hún stal jobbinu af Nonna og stjórnaði talíunni af mikilli snilld. Hún fékk líka að taka innanúr einum skrokk með Hollu. 

Þóra lærir handtökin við innanúrtökuna og Pétur fylgist sposkur með

Við kíktum í Hrólfstaðahelli á Önnu og Eið en Nonni tók að sér að skera niður, beygja og sjóða saman tvær ryðfríar borðplötur í vinnsluna. Þau eru komin með vinnsluleyfið og allt að detta í gang, verður alveg til fyrirmyndar hjá þeim.

Hér er Eiður framan við dyrnar á reykkofanum ásamt Jóni söðla, Sigga tengdasyni og Stebba tengdó að steypa í hann gólf

Um síðustu helgi úrbeinuðum við og hökkuðum rollur, hlutuðum lömbin og pökkuðum lærum og hryggjum
Holla prófaði aðeins að vinna gærurnar sem hún hirti í slátruninni en ullina ætlar hún að spinna, hún komst að að það tekur aðeins lengri tíma en þessa einu köldu viku fyrir ullina að losna af gærunni.  

Holla hefur það bara kósí í skemmunni við að slíta ullina af gærunni

Við létum stiga nokkrar lífgimbrar og hrúturinn hennar Sníkju í síðustu viku, gimbrarnar voru ágætar og jafnar og hrúturinn úrvals en hann stigaðist 83,5 stig sem er nokkuð gott í mislitu fé. Hann er líka skemmtilega gæfur eins og Gullu-kynið okkar og kemur hlaupandi þegar hann sér bílinn og alveg til í að þiggja hestanammi - smellið hér til að sjá smá video af þeim mæðginum.

Hrúturinn hennar Sníkju er svartflekkóttur og botnóttur

Nonni er búinn að mála gólfið í skemmunni þannig að nú getur stóri John Deere farið inn til viðgerðar. Allt að gerast í sveitinni...

         
Comments