Við fórum fórum í að hluta niður lambakjötið og pakka því þegar við komum austur á föstudagskvöldið, það er þá búið að hanga í viku við kjöraðstæður milli 0-4°C.
Á laugardag fórum við í að úrbeina og hakka niður tvær rollur og svo verður búið til úr þeim kjötfars og bjúgu þegar færi gefst á.
Holla í kjallarnum á Vindási hreinsar slögin og er ánægð með dagsverkið
Nonni og Gummi fóru að því loknu og tóku í nýjasta leikfangið í dótakassanum hans Nonna sem kom austur á föstudag en það er 14 tonna Caterpillar hjólagrafa og leiddist þeim sko ekki baun.
Grafan komin á hlaðið á Vindási
Við fórum svo seinnipartinn niður á Lækjarbotna og skoðuðum með þeim nýtt logo fyrir ræktunarbúið en þau eru ein af fjórtán búum sem tilnefnd eru til heiðursverðlauna Bændasamtaka Íslands fyrir árangur í hrossarækt á árinu 2011 og eru vel að því komin en þau sendu sjö hross í dóm og öll lentu í fyrstu verðlaunum og þar af var Kórall hæstur með 8,50.
Á sunnudag fórum við ásamt heimilisfólkinu á Vindási og smöluðum öllu fénu inn í hlöðu og flokkuðum líflömbin og hrúta úr hópnum. Við fórum svo aftur niður á Botna og nú kíktum við á framkvæmdir við fiskeldið.
Gulli og Siggi voru að útbúa stíflu við lindina sem nota á fyrir fiskeldiskerin.
Við tókum líka stöðuna á "stóðhestinum" okkar honum Gjafari, sem er undan Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu og Vímu frá Lækjarbornum. Hann heldur áfram að þroskast og hann er gæfur og yfirvegaður og fer um á tölti undir sjálfum sér sem lofar góðu.
Gjafar er að komast í vetrarbúning, bústinn og myndarlegur
Þegar við komum til baka á Vindás fóru Nonni og Gummi í að losa dippertjakkinn af gröfunni og settu hann á kerru sem við tókum svo með í bæinn, Nonni ætlar svo að skipta um þéttingar í honum í vikunni enda ómögulegt að hann sé að leka og sóða vélina út. Eftir kvöldmat renndum við svo í bæinn.
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >