24. maí 2010

posted May 24, 2010, 12:25 PM by Jón Pétursson
Vikan er búin að vera fljót að líða, nóg að gera í sauðburði og endurvinnslu túna. 
Guðrún mamma Hollu var hjá okkur fram á miðvikudag og hafði hún sjálf ljósmóðirin mjög gaman af að taka þátt í sauðburðinum og dundaði eitt og annað með okkur.
Helga Hrönn systir Hollu rúllaði í sveitina á mánudaginn með Magnús Ara og Birnu Karen en stoppuðu ekki lengi þar sem Helga átti að mæta á morgunvakt daginn eftir.
Fanney og Elfa voru  hjá okkur fram á miðvikudag, voru þær nokkuð sáttar - búnar að taka á móti nokkrum lömbum fara í pottinn á kvöldin og borða góðan mat ala mamma.
 
Á þriðjudagskvöldið snérist vindurinn okkur í óhag og rigndi yfir okkur ösku svo allt varð kolsvart, sá ekki út um glugga á bústaðnum - það kom mest á óvart hvað er hrikalega erfitt að ná öskunni af. Við tvíþvoðum húsið pallinn og grindverkið en samt litaðist pensillinn svartur þegar frúin fór að bera á handriðið í blíðunni á laugardaginn.  Sem betur fer er jökullinn þagnaður í bili að minnsta kosti og vonum við að svo verði áfram.
 
Askan féll með rigningunni og allt varð sementsgrátt á nokkrum mínútum - á hinni myndinni sést til Eyjafjallajökuls eftir að gosið gekk niður og er það vonandi búið...
 
Nonni er búin að eyða löngum tíma á stóra dýrinu í flaginu ásamt þeim Braga og Gumma á Vindási en Holla og Magga tekið þungan af sauðburðinum á meðan, nú er búið að plægja, tvítæta og tæta aftur með pinnatætara, sá í rúma 8 hektara og tvívalta - vel af sér vikið hjá strákunum. 
 
Síðasta umferð með pinnatætarann áður en sáð er og valtað 
 
Sauðburðurinn hefur gengið vonum framar og ekki mikill lambadauði þetta árið. Þó nokkuð hefur komið af skemmtilega lituðum lömbum, eitt flott sem við fengum var botnóttur, krúnóttur og sokkóttur hrútur og er hann undan jakobsbíldóttum flekkóttum gemsa sem heitir Rósa og Móra, mórauða hrútnum sem við fengum frá Lækjarbotnum í fyrra.
 
 
Holla með hrútinn hennar Rósu og á hinni myndinni er Rósa
 
Holla fór á fjórhjólinu á fimmtudaginn að leita af golsóttu gemsalambi sem hafði orðið viðskila við mömmu sína ekki fann hún lambið en keyrði fram á lítinn þrílembing sem hafði orðið viðskila við sinn hóp og var orðinn ansi lélegur, litlu gimbrinni fannst ekki slæmt að fá bíltúr ofan í hálsakoti á kellu þar sem hún kláraði rúntin um túnin. Með smá hlýju og mjólkursopa var lambið staðið á fætur innan sólahrings og núna kemur litla krílið hlaupandi á móti þeim sem mætir með pelann og er svaka dugleg og reynir mikið að sjúga kindina sem hún er í stíu með en sú er ekki alltaf á því að leyfa henni það.
 
Í vikunni settum við niður kartöflur í garðinn og planið er að setja niður gulrætur og eitthvað fleira grænmeti líka.
Helgin var róleg í sauðburðinum hjá okkur þar sem allt var fullt að börnum tengdabörnum og barnabörum á Vindási til að sinna kindunum og var helgin þá notuð til að koma viðarvörn á handriðið og Nonni heflaði m.a. veginn að bústöðunum og upp að Vörðum og að Vindási.
 
Á sunnudaginn komu Anna og Þór pabbi Hollu í bíltúr, kíktu á lömbin og renndu í ánna, sátu með okkur á pallinum í sól og 23° hita og borðuðu með okkur grill og renndu síðan í bæinn um kvöldið.
Mánudagurinn fór í að klára viðgerðina á glussadælunni á Massanum og Nonni og Gummi kláruðu að setja hann saman og nú virkar vökvakerfið fínt og næst er að setja á hann ámoksturstækin.
Holla og Magga litu eftir kindunum og fundu annað lamb sem hafði orðið viðskila við mömmu sína, við vorum búin sjá það eitt fyrir 2 dögum en var sprækt að sjá svo vonin var að það mundi rata aftur til mömmu - þannig að nú eru tvær litlar gimbrar sem vonast eftir fósturmóður.
Pétur er búin að dúlla sér í Bensanum og nú er ekki langt í sprautun. Það er kominn kvíðahnútur í magann að þurfa að yfirgefa sveitina og fara í bæinn aftur, við gætum alveg hugsað okkur að vera lengur.
 
Comments