24. júní 2014

posted Jun 24, 2014, 4:51 PM by Jón Pétursson
Helgin 13-21 júní. 
Nonni hamaðist við að koma stóra John Deere í gagnið með smá hjálp frá Hollu náði hann að koma honum á götuna þann 17. júní.  

Stóra dýrið kominn úr uppgerð svona skínandi fínn og allt virkar - hann sómir sér hér vel með massanum sem Nonni gerði upp árið 2008

Síðasti gemsinn bar, það gekk ekki stórslysalaust því legið gekk út á henni, Holla og Bragi komu því inn aftur og fékk Holla lánaða legstoð til að halda því á sínum stað. 
Það er ekki alveg búið að vera dans á rósum hjá okkur með dýrin okkar, en við misstum Hóla-botnu okkar úr einhverri eitrun en náðum þó úr henni lömbunum, annað drapst strax en hinu komum við undir aðra kind þannig að það gæti skilað sér í haust. 
Garpur aðal reiðhesturinn hennar Hollu er úr leik, hann bólgnaði mikið á öðrum framfæti undir vorið og var úrskurðaður ónýtur af dýralækni, farin kvíslbönd í framfæti. Mikil sorg að missa þennan gæðing úr reiðhestahópnum. 

Garpur frá Sauðárkróki og Holla á góðri stund
  
Tvær hryssur fengu hófsperru og önnur var ansi slæm, þær allar að koma til eftir að hafa verið í gerðinu við fjárhúsið á þriðju viku á óábornu heyi en fengu svo að fara á grænt stund og stund um síðustu helgi áður en við slepptum þeim í girðingu til Gjafars okkar. Þær eru báðar óhaltar þannig að hófaklippingin hjá Gvendi skalla og hvíldin hafa gert þeim gott. 

Elding og Pumba leituðu skjóls í hitanum fjárhúsinu eins og kindurnar - frekar kósí hjá þeim

Edda, Bob, Will og Kirsty komu til okkar á sunnudagskvöldinu, Holla fór í smá dýralífsskoðunarferð með þau á mánudeginum skoðuðum hvolpa, kettlinga, kanínur, lömb og folöld einnig sáu þau risa hestahóp um 150 hross og hátt í 60 knapar ansi stór hópur.
Hún fór líka með Bob og Will og renndi fyrir fisk og gekk bara vel hjá þeim 

Bobby náði flottum og Will einum fimm punda sem var maríufiskurinn hans og að sjálfsögðu varð hann að bíta veiðiuggann af
 
Á 17. júní var hefðbundin dagskrá á Brúarlundi við keyrðum Þrumu niður á Lækjarbotna og reið Holla með Tótu og Sigga að Brúarlundi - kellan skellti sér í hópreiðina og síðan í keppnina, ekki unnu þær til neinna verðlauna þetta árið en náðu samt að komast í úrslitahópinn og koma bara sterkari inn á næsta ári. 

 
Mæðgurnar Fanney, Guðrún og Holla ásamt Þrumu - á hinni myndinni er þríþrautin við Brúarlund og þar sem Holla vann hana í fyrra varð hún að halda hana í ár

Nonni fór að vinna á miðvikudeginum en Holla kom útlendingunum af stað í ferðalag með tjaldi og græjum. 
Holla og Nína kíktu í Skinnhúfu til Maju á fimmtudeginum gaman að koma til þeirra og sjá hvað þau eru búin að koma sér vel fyrir. 

Svo gaut kisa fjórum kettlingum fimmtudaginn 19. júní sem allir eru að missa sig yfir enda voða sætir

 
Kisa með kettlingana nýfædda, einn gulur, annar grábröndóttur og gulur og tveir svartir og hvítir og Fanney að missa sig á hinni myndinni

Nonni kom svo aftur í sveitina á föstudeginum, sló grasið hjá Möggu og Braga á Vindási, Önnu í Helli og við bústaðinn þannig að það var langur vinnudagur. 

Laugardagurinn og sunnudagurinn fóru í girðingavinnu þar sem við útbjuggum nýtt stykki fyrir reiðhestana inni við Laugar. Flugan var reyndar alveg að drepa okkur og munum við ekki eftir öðru eins. Bobby og Will komu svo úr ferðalaginu á sunnudag og hjálpuðu okkur við að klára girðinguna.

Það er fallegt undir Laugaholtinu þar sem nýja reiðhestastykkið er

Reyndar skutumst við niður á Selfoss á laugardaginn að kaupa meira efni í girðinguna og skoðuðum um leið fornbílasýninguna á Landsmóti Fornbílaklúbbsins

Einn flottur Land Rover árgerð 1964 svipaður Landanum okkar sem er árgerð 1967 og lítur nú svona út - hvað ætli verði langt þar til hann verður jafn flottur hinum?

Við færðum reiðhestana í minna hólf við Laugar en Gjafar fékk hitt stykkið við Vindás, hann byrjaði með tvær merar en fær svo þrjár í viðbót þegar þær eru kastaðar. Við kláruðum að græja brynningu í hólfið en vatnið kemur frá heitu borholunni sem boruð var við Vindás í fyrra.

Gjafar og Púmba hennar Stínu stinga saman nefjum og á hinni myndinni er hann að sinna skyldu sinni með Eldingu

Á sunnudeginum bilaði Fordinn enn einu sinni og nú var það altenatorinn sem fór þannig að við hlóðum geyminn um kvöldið og rétt náðum við að keyra hann niður á Jeppasmiðjuna á Ljónsstöðum við Selfoss þar sem við skildum hann eftir og fengum Pétur til að koma á móti okkur úr bænum - vorum ekki komin heim fyrr en undir tvö um nóttina - gaman gaman

Comments