24. janúar 2011

posted Jan 24, 2011, 11:50 AM by Jón Pétursson
Við komum við á Lækjarbotnum þegar við komum austur á föstudaginn og var okkur boðið í mat, ný soðin hrogn með kartöflum og smjöri og harðfisk alveg rosalega gott.
Laugardagurinn fór að mestu í að safna kröftum fyrir hið árlega þorrablót Landmanna í Brúarlundi um kvöldið en við renndum samt aðeins að Vindási og sníktum kaffisopa en annars var bara kúrt fram að partíi hjá Möggu á Vörðum. Það hefur verið hefð síðustu ár að kíkja við hjá Möggu áður en við förum á blótið, þar voru fyrir Kristrún dóttir Möggu, Beta og Örn Svavarsson.
Blótið var skemmtilegt að vanda, maturinn frá Múlakaffi góður og frábær heimalöguð skemmtiatriði, mikið spjallað og dansað.
 
Það var þétt setinn bekkurinn á þorrablótinu og mikið spjallað 

Sunnudagurinn fór að mestu í slökun en eftir hádegið kom Lína ásamt Magga og kærastanum til að sækja hrossin sín.  Krakkarnir fengu að labba hagann endilangan þar sem hrossin héldu sig í suðvesturhorni jarðarinnar og voru eins langt frá gerðinu og þau komust.  Það var þvílík rigning og rok en krakkarnir þurftu ekki nema stugga við hrossunum og þá hlupu þau niður að fjárhúsi en það var ekki þurr þráður á krökkunum þegar þau komu til baka á strigaskónum...
Eftir að hrossin voru komin í gerðið var létt mál að ná Hyllingu og Gaddi og koma þeim á kerruna.
Við settum svo vítamín og saltstein hjá hrossunum og Nonni ræsti stóra dýrið og skóf mestu drulluna sem kindurnar voru búnar að bera með sér ofan af veginum við fjárhúsið en það er ótrúlegt hvað mikil drulla verður allsstaðar þegar rignir eins og það er búið að gera síðustu daga.
 
Allt á floti og drulla um allt -  en hrossin kvarta ekki enda fengu þau Hnokkakúlur að gæða sér á
 
Gulla uppáhaldskindin okkar er komin með litla vinkonu sem kemur nú með henni til að fá smá nammi þegar sést til okkar við fjárhúsið og sú litla, sem var heimalningur í vor, eltir okkur eins og hundur um allt þegar við erum að stússa við fjárhúsið - frekar skondin. 
Við fórum svo um kvöldmatarleiti í bæinn - ekki var mikið gert þessa helgina, við verðum bara duglegri næst...
 
 
Comments