24. apríl 2012

posted Apr 24, 2012, 2:20 PM by Jón Pétursson
Við tókum langa helgi þar sem frí var á fimmtudag. Á fimmtudaginn fóru Nonni og Trausti í að slétta gólfið í hlöðunni og setja upp burðastíurnar á meðan bökuðu Holla, Magga og Stína flatkökur og kleinur fyrir þrítugsafmæli Trausta.

 
Trausti, Stína og Aníta við burðarstíurnar í hlöðunni - á hinni myndinni hjálpast Aníta og Stína við að leggja út leiðara

Við fórum með Lúkas og Garp niður til Eiðs í Helli á föstudaginn í járningu og skildum þá eftir fram á laugardag. 
Fanney og Elfa mættu í sveitina á föstudagskvöld og hjálpuðu til við að sprauta féð á laugardaginn sem síðan var sorterað og keyrt heim það sem verður látið bera heima í hlöðu.

 
Það var samhent lið við rennuna í fjárhúsinu 

Nú er Orri forystusauður einn eftir af sníkjukindunum niðri við fjárhús, hann er engin smásmíði og það er eins og Holla og Myrka minnki við hliðina á honum

Um kvöldið mokuðu Nonni og Bragi moð, tað og drullu úr gerðinu heima við Vindás þannig að nú er það þurrt og fínt þannig að nú er allt að smella fyrir sauðburð.

 
Nonni notaði stóru skófluna á gröfunni til að skafa drulluna ofan af mölinni í gerðinu

Eftir fjárstússið fórum við niður í Helli og Holla notaði blíðuna og skellti sér á hestbak á meðan Nonni, Eiður og Reynir mældu og skoðuðu Hellislandið fyrir deiliskipulag sem Nonni er að vinna fyrir þá.
Á sunnudag settu Holla og stelpurnar settu niður græðlinga í beðið í stað þeirra sem drápust í fyrra en stór hluti þess sem við settum niður klikkaði - líklega vegna þess að græðlingarnir urðu of gamlir áður en við komum þeim niður.
Nonni og Bragi mokuðu á meðan upp hrúgunni sem var við hlöðuvegginn og keyrðu í burtu.
Á eftir skelltu Fanney og Holla sér einn hring á hestbaki um Vindáshagann í blíðunni. Svo var bara að pakka saman og skella sér í bæinn með viðkomu á Lækjarbotnum í smá kaffisopa.

Comments