Fórum austur á fimmtudag þar sem árleg veiðiferð í Veiðivötn var þessa helgina. Nonni fór beint til Eiðs í Helli í til að rúlla fyrir hann og kláraðist það um miðnættið enda um 270 rúllur. Holla bakaði flatkökur, skar niður hangikjöt fann til útilegudótið og annað nesti á meðan.
Föstudagsmorguninn var tekin snemma til að pakka saman rest ásamt að raða í bílana. Myrka varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu um morguninn að vera stungin í nefið af geitungi og það bólgnaði helling svo Holla varð að hendast með hana til dýralæknis á Hellu - þetta varð til þess að mikið stress var að ná á réttum tíma upp í vötn til að byrja að leggja netin. Myrka jafnaði sig sem betur fer yfir helgina. Sigga systir Nonna og maður hennar Jan voru með í för ásamt Stebba, Möggu, Teiti, Guðmundi Auðunni og Kristrúnu. Veðrið var ekki beint skemmtilegt þessa vatnaferðina, 3-5° á daginn og fór niður undir frostmark á nóttunni + hellingsrok. Aflinn var minni en oft áður eða 78 fiskar en allir vænir enda meðalvigtin yfir þrjú pund.
Kósístund með færið úti og á hinni myndinni er verið að losa myndarlega urriða sem hafa ánetjast í Litlasjó
Þegar í bústaðinn var komið á sunnudag var aflanum skipt og vakúmpakkað á Vindási. Um kvöldið var læri hent í ofninn og potturinn þrifinn og Sigga og Jan borðuðu með okkur og svo var potturinn um kvöldið - ekki var amalegt að liggja og hvíla lúin bein í honum. Pétur hafði komið austur með Þórhalli og dundaði sér eitthvað í bensanum um helgina. Sigga og Jan gistu hjá okkur og var mánudagurinn tekinn í slökun og prjónaskap hjá kellum en Nonni fór að slétta vikurinn í reiðveginn sem við byrjuðum á um síðustu helgi en Gulli fékk menn í lið með sér á sunnudaginn í að keyra í hann. Um kvöldið var rúllað í bæinn nú er sumarfríið búið...
|