24. ágúst 2009

posted Aug 24, 2009, 2:56 PM by Jón Pétursson   [ updated Aug 24, 2009, 4:59 PM ]
Við fórum austur á fimmtudagskvöld til að pakka niður fyrir hina árlegu netaveiði í Veiðivötnum. 
Einnig sóttum Eldingu til Eiðs í Hrólfsstaðahelli og slepptum henni í hólfið með hinum trippunum, en við ákváðum í samráði við Eið að gefa henni frí fram á haustið. Holla notaði tækifærið og færði Eið og Önnu hestapeysur sem hún hafði sjálf hannað og prjónað á þau í þakklætisskyni.
 
Holla og Fanney í peysunum sem Eiður og Anna fengu
 
Það var svo stór hópur sem lagði af stað á hádegi á föstudag upp í Veiðivötn. Magga á Vörðum mætti að sjálfsögðu frá Danmörku og allir hennar krakkar, makar þeirra og barnabarn ásamt Erni Svavars og Snorra syni hans.  Einnig kom Gísli sonur Möggu með tvo dani með sér.  Með okkur kom Fanney, Stebbi vinur og synir hans - í allt voru þetta tuttugu manns á fimm bílum!
Veiðin gekk vel og á föstudagskvöld vorum við komin með 22 fiska og alla væna. Á laugardaginn gekk enn betur og enduðum við á sunnudeginum í 120 fiskum sem vógu 163 kíló og þar af veiddi Holla einu tvo fiskana sem komu á stöng.
 
  

Einnig náðum við sannkölluðum happafeng þegar við náðum að bjarga þremur mönnum úr Snjóölduvatni þar sem báti þeirra hafði hvolft í haugasjó. Það var ótrúleg heppni sem elti þessa menn eftir óhappið því að menn sáu til þeirra rétt fyrir myrkur þegar tvær öldur skullu á bátnum þeirra, fylltu hann og hvolfdu honum á augabragði úti á miðju vatni og létu neyðarlínuna vita.
 
Báturinn þeirra var með tvöföldu byrði og flaut því þó hann væri á hvolfi og náðu mennirnir að halda sé á kilinum þangað til að þeim var bjargað.
 
Við vorum stödd við aðgerðarborðið framan við skála veiðivarðanna þegar Rúnar veiðivörður kom hlaupandi út og bað okkur um að fara niður í Snjóölduvatn og bjarga mönnunum. Nonni hentist af stað með Teiti og Stebba og mættu þeir mönnum á leiðinni sem urðu vitni að atburðinum og leiddu þá beint á réttan stað.
Þeir voru snöggir að koma bátnum á flot og þorðu ekki annað en að fara tveir út því það var ekki vitað hvernig gengi að koma mönnunum um borð. Þegar að þeir komu að bátnum þá lágu tveir ofan á bátnum og einn sat í miðjunni, þeir voru ótrúlega hressir enda höfðu þeir víst ekki verið nema um tuttugu mínútur í vatninu þannig að ótrúlega stuttur tími leið frá því að bátnum hvolfdi og við vorum komnir á staðinn.  Það var líka eins gott að löggan var ekki með hraðamælingar á leiðinni...
Það gekk vel að koma mönnunum um borð en báturinn okkar var ansi vel hlaðinn þegar fimm fullvaxnir karlmenn, og þar af þrír rennandi blautir, voru komnir í hann en hann er bara gerður fyrir fjóra meðalmenn. Á leiðinni í land var haugasjór og gengu öldurnar inn í bátinn okkar þannig að hann fylltist en það kom ekki að sök því að gúmmíbátar fljóta greinilega vel þó þeir fyllist af vatni en Nonna brá reyndar þegar hann tók eftir því að bensíntankurinn var á bólakafi í botni bátsins og loftskrúfan opin þannig að vatn gat sogast inn í hann og drepið á mótornum á leið í land en honum tókst að losa hann og halda honum upp úr vatninu.
Þegar þeir náðu landi hafði drifið að fjölda fólks sem tók á móti mönnunum og kom þeim úr blautu fötunum og svo inn í hlýtt hús hjá veiðivörðunum. 
Við hittum þá svo daginn eftir og hafði engum orðið meint af og meira að segja náðu þeir bátnum óskemmdum og týndu ekki nema einni ár, meira að segja netið sem þeir höfðu vitjað hékk í bátnum með tólf fiskum í! 
Við hittum líka Rúnar veiðivörð og hrósaði hann bátnum okkar og sagði það hafa verið skrautlega sjón þegar við renndum í land og varla sást í bátinn undir mönnunum.
 
 
 
Comments