Síðan hefur legið í dvala undanfarnar vikur en við höfum verið í sumarfríi og nóg að gera. Búið að heyja í rollurnar á Vindási og bara eftir að að rúlla í hrossin sem verður væntanlega í byrjun ágúst.
Nonni tók rúlluvélina í yfirhalningu í fríinu og skipti um legur og rétti stangirnar í belgkeðjunni. Þegar langt var komið með að rúlla fór keðja sem knýr botnrúlluna í vélinni og reyndist það vera vegna þess að boltar í tannhjólinu á enda hennar brotnuðu en því var snarreddað með því að setja tvo nýja bolta af fjórum þar sem gengjurnar voru heilar og svo var klárað að rúlla.
Hér er búið að taka eina stöngina úr belgkeðjunni til að rétta hana - á hinni myndinni er búið að rífa botnrúlluna úr vélinni og verið að ná brotnu boltunum úr, tannhjólið sem fer á enda rúllunar liggur ofan á dekkinu.
Af hitaveituframkvæmdum á Vindási er það að frétta að búið að leggja vatn- og raflagnir, loka hitaveituskurðinum og moka að dæluhúsinu.
Holla skellti sér í hestaferð með Hellishópnum frá Helli og hring um Skarðsfjall og áð í Skarði, næsta dag var riðið niður í Réttanes og aftur heim í Helli í snilldarveðri - frábær ferð í alla staði.
Við kíktum í graðtittagirðinguna við Laugaland þar sem Gjafar er og sýnist okkur hann þroskast vel.
Gjafar frá Mið-Setbergi veturgamall, hann er undan heimsmeistaranum Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu og Vímu frá Lækjarbotnum.
Sigga systir Nonna er í heimsókn frá Skotlandi og með henni eru maður hennar Jan og börnin Duncan, Donna, Tyler, Mary, Anna, Ross, Edda og Bob. Við fórum á ættarmót móðurættar Nonna á Núpi í Dýrafirði um síðustu helgi með allan mannskapinn ásamt Fanneyju og Pétri - þetta var heljarmikið fjör. Við keyrðum vestur á föstudaginn í blíðunni, frábært útsýni virkilega gaman að skoða sig um en 10 ár eru síðan við fórum síðast.
Hluti afkomenda Jóns og Ágústu á Gemlufalli við Dýrafjörð á hlaðinu á Núpi.
Við fórum m.a. í bíltúr á Þingeyri og skoðuðum hús afa og ömmu Nonna og röltum aðeins um í bænum.
Sigurjónshús á Þingeyri þar sem Pétur pabbi Nonna bjó - á hinni myndinni sést yfir Dýrfjörðinn frá Þingeyri heim að Gemlufalli þar sem Jónína mamma Nonna bjó.
Við kíktum líka við að Minna-Garði sem er í eigu erfingja barna Jóns og Ágústu.
Nonni og systkini hans eiga fimmta part í Minna-Garði
Á sunnudaginn var lagt í bæinn og vorum við komin heim um kvöldmatarleitið og skiluðum liðinu af okkur síðan var bara að skella sér austur aftur með allan útilegubúnaðinn - okkur reiknaðist til að einir 1300 km hafi legið þessa helgina. Sigga og Jan ásamt Duncan, Donnu og Tyler fóru Barðaströndina til baka og gistu á Laugum í Dölum og fóru svo á mánudag hring á Snæfellsnesi og svo í bæinn. Þau eru búin að þvælast mikið, hafa farið á Eyjafjallajökul, Reynisdranga, Gullfoss og Geysi og víða um Suðurland.
Nonni fór á Lækjarbotna á mánudag og rúllaði tæpar 100 rúllur og svo rúmlega 100 á Vindási þegar því var lokið.
Á Lækjarbotnum - gamli John Deere 1959 módel á Lækjarbotnum nær og stóri John Deere með rúlluvélina fjær.
Veðrið búið að dekra við okkur þessar 2 vikur sem við vorum í fríi og alltaf jafn súrt þegar það klárast.
Við fórum svo aftur í bæinn á þriðjudag til vinnu.
Við fórum svo austur um þessa helgi og komu Edda, Bob, Anna og Ross með okkur. Þau voru ekki eins heppin með verður eins og þau hafa verið í ferðinni fram að þessu því að seint á laugardag og sunnudag rigndi. Þau renndu í ánna og Bob náði tveimur. Fanney kom svo á laugardag með nýja kærastann og fóru Anna og Ross með þeim í bæinn því þau áttu flug heim til Skotlands á sunnudag ásamt restinni af liðinu frá Skotlandi fyrir utan Eddu og Bob.
Edda og Bob fara ekki heim fyrr en á þriðjudag þannig að Holla fór með þau í Hrólfsstaðahelli á sunnudag og Siggi fór með þau í góðan útreiðartúr. Edda hefur ekki komið á hestbak í fjölda ára og Bob aldrei en þau skemmtu sér konunglega.
Edda og Bob tóku sig vel bara út á hestbaki og ekki síður er Siggi flottur á honum Garpi okkar
Við fengum Valla á laugardaginn til að keyra fyrir okkur fjögur hlöss í veginn upp að bústaðnum og Nonni sléttaði úr. Hann fór svo í staðinn á sunnudag og heflaði afleggjarann að Flagbjarnarholti sem Valli keyrði efni í í sumar.
Nonni fór svo í skemmuna og skipti um fleiri legur í belgkeðjunni á rúlluvélinni og telst til að nú séu ekki "nema" 30 legur sem á eftir að skipta um.