Við fórum af stað í fyrra fallinu austur á föstudag þar sem veðurspáin fyrir kvöldið var ekki góð og lentum ekki í neinum vandræðum á leiðinni.
Á laugardagsmorguninn fórum við að Vindási og fórum með þeim í að taka hrútana úr ánum og settum um leið fullorðinsmerki í gemsana. Við settum hrútana saman í stíu og reyndum að hafa þröngt á þeim en þeir náðu samt að renna saman og glumdi í fjárhúsinu þegar hornin skullu saman en þeir róuðust svo fljótlega.
Það fallegt yfir að líta á laugardag, blankalogn en 9 gráðu frost
Lambrútarnir voru mis vel á sig komnir eftir fengitímann og fannst okkur Bikar líta einna best út af þeim, það er vonandi ekki merki um það að hann hafi ekki staðið sig í stykkinu.
Bikar fyrir miðri mynd
Um kvöldið var blótað þorra í Brúarlundi - virkilega skemmtilegt, mikið hlegið og dansað fram á nótt. Skemmtiatriðin voru góð að vanda og fast skotið á vissa sveitunga okkar.
Á sunnudag hafði hlýnað mikið, komnar 3 gráður í plús en sama lognið og blíðan.
Eftir hádegi renndum við í kaffi á Botna og síðan í Helli og þar var Elding tekin til kostanna af frúnni. Það gekk vel en það á eftir að taka nokkur skipti hjá þeim stöllum að pússast saman.
Holla og Elding frá Mið-Setbergi
Eftir að hafa kúrt yfir kvöldfréttum og Steina í Hippakoti í Sjálfstæðu fólki var lagt í hann í bæinn.
Við keyrðum Súbarúinn fyrir Þórhall á Selfoss en hann var að fara með jeppann í viðgerð á Ljónsstaði.
Við vorum pínu lúin þegar við komum heim um kvöldið enda ekki vön að vaka svona fram á nótt - gamla fólkið...
|