23. desember 2009

posted Dec 23, 2009, 1:03 PM by Jón Pétursson
Við renndum austur á föstudagskvöld, Pétur varð eftir í bænum til að fara í afmæli en ætlar að koma með strætó á Selfoss á laugardag.
Nonni kláraði að smíða jólagjöfina fyrir Lækjarbotnafólkið um kvöldið, þetta er svona öðruvísi gjöf en vonandi verða þau sátt við hana...
 
Það var skítakuldi og rok í sveitinni þessa helgi 
 
Á laugardag fór Holla að baka meiri flatkökur og kleinur með Möggu á Vindási og Nonni setti nýju afturdekkin undir stóra dýrið og notaði tækifærið áður en þau fóru á til að laga betrumbæta slit sem er í stönginni sem skiptir á milli afturábak og áfram.  Hann fór svo á Selfoss og sótti Pétur og skildi hann svo eftir hjá Tóta á Lækjarbotnum.
 
Nýju dekkin fara vel undir dýrinu, þau eru töluvert breiðari en dekkin sem voru undir. 
 
Eftir kvöldmat fóru Nonni, Pétur og Tóti að setja nýtt háspennukefli í bensann - ekki fór hann í gang við það en nú var kominn neisti á kertin sem hafði ekki verið áður þannig að líkast til var kveikjuröðin ennþá vitlaus eftir fiktið í Sigga í Helli.  Eftir leit á netinu fannst mynd þar sem sást hluti af réttri röð þannig að eftirleikurinn var léttur og nú datt hann í gang!  Þetta leiddist drengjum nú ekki og var farið prufutúr út á Vindás þar sem Holla var að baka sörur með Möggu og Gumma. Allt virkaði sem skyldi en líklega þarf að bæta frostlegi á hann þar sem að hann hitnaði óþarflega - kíkjum á það um næstu helgi.
 
Á sunnudag var Pétur kominn upp óvenju snemma og var bensinn tekinn til kostanna, svo var rennt snemma í bæinn því von var á Guðrúnu, Árna og Rakel litlu að austan en þau ætla að vera hjá okkur um jólin.
 
Pétri þótti ekki leiðinlegt að renna bensanum um flötina, líklega þurfum við ekki að hafa áhyggjur af mosavexti í túninu næsta sumar...
 
 
 
Comments