22. október 2012

posted Oct 22, 2012, 3:44 PM by Jón Pétursson   [ updated Oct 22, 2012, 3:46 PM ]
Það er enn allt of mikið að gera bæði í sveitinni og vinnunni hjá Hollu og hún ekki að standa sig í dagbókarskrifum en hér koma síðustu tvær helgar.

Við slátruðum á föstudagskvöldinu 12. október og vorum búin um miðnætti vaskur hópur en ásamt okkur Árna og Pétri voru Magga, Bragi, Gummi, Villý, Sverrir, Helgi, Gísli og Stína.


Holla hreinsar innan úr, Stína, Magga þvoðu, Villý sá um innmatinn og Gummi og Árni fláðu, Gísli hengdi upp og viktaði, Sverrir skar fyrir, Bragi Pétur og Helgi slátruðu og Nonni bar skrokkana á milli og stjórnaði talíunni við fláninguna af einstakri snilld

Á laugardeginum fóru kerlurnar í sláturgerð er Nonni, Bragi og svo Gummi í að svíða hausana.


Tekið á því í sláturgerðinni

Á sunnudaginn flokkuðum við tvö kör af bleikju með Guðlaugi, Jónínu og Sigga á Lækjarbotnum. 

Síðasta helgi var líka þétt setin - á föstudagskvöldinu hlutuðum við skrokkana og pökkuðum, úrbeinuðum rollurnar og skárum í strimla fyrir hökkun. Á laugardeginum var kjötið hakkað og gert klárt í kjötfars og bjúgu. Við gerðum tvær hrærur af bjúgum þetta árið og notuðum uppskrift frá Önnu í Helli - vonandi tekst eins vel til hjá okkur og henni.
Munda frá Vindási mamma Möggu var kistulögð á laugardaginn en hún lést á Lundi 19. október - við sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur.
Um kvöldið fórum við ásamt Möggu og Braga á árlega árshátíð Veiðifélags Veiðivatna sem haldin var á Leirubakka eins og síðasst. Við fengum frábæran mat og áttum skemmtilegt kvöld í hópi sveitunga.
Um helgina var skyldusmölun þannig að á sunnudagsmorgun var öllu fénu smalað heim en við höfðum ekki tíma til að fara yfir hópinn taka hrútana frá og athuga hvort eitthvað ókunnugt væri í hópnum - heimafólkið á Vindási ætlar að fara í það á mánudag.


Féð rekið heim að Vindási

Eftir hádegi kláruðum við að laga og pakka kjötfarsinu, einnig settum við í nokkrar áleggspylsur svo til prufu - það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. 
Svo var bara að pakka saman og koma sér í bæinn. Við komum við á Lækjarbotnum og vorum rifin inn í mat og fengum barbecue kanínu sem smakkaðist svona ljómandi.
Comments