Á laugardaginn fór Holla í tiltekt í bústaðnum og Nonni fór út í vélaskemmu að setja nýjan hljóðkút í stóra John Deere sem nú malar eins og köttur.
Á sunnudag fórum við snemma með Vindásbændum til þess að koma upp kindaflokkunarrennunni og grindum í fjárhúsinu til að gera tilbúið til að sprauta féð með svokallaðri baðsprautu sem er breiðvirkt orma og lúsalyf - sprautan er kölluð þetta vegna þess að áður voru kindurnar kafbaðaðar til að hreinsa þær af lús. Því næst smöluðum við fénu af túnunum inn í fjárhúsið og fórum svo í mat á meðan við biðum eftir Grétari dýralækni.
Grétar var ánægður með vinnuaðstöðuna við kindaflokkarann enda gríðarleg framför frá því að draga kindurnar og slást við þær þegar ekkert aðhald er.
Næst var farið upp í lambahús og gemsarnir og hrútarnir líka sprautaðir, gemsarnir fengu að auki sprautu í bóginn við garnaveiki.
Við notuðum tækifærið fyrst Grétar var kominn og fengum hann til að til að sprauta hrossin líka með orma og lúsalyfi.
Í allt voru þetta 217 kindur og 10 hross sem voru sprautuð og það tók ekki nema rúma tvo tíma - svona er að vinna sér í haginn og vera með góða aðstöðu!
Á heimleiðinni komum við svo við á Ljónsstöðum og tókum Fordinn en þeir í Jeppasmiðjunni voru búnir að laga rafbúnaðinn sem stýrir bensíndælunni.
|