22. mars 2009

posted Mar 22, 2009, 2:07 AM by Jón Pétursson   [ updated Mar 23, 2009, 11:25 AM ]
Við fórum í vísindaferð með hrossaræktarfélagi Andvara á laugardaginn, farið var í Austurkot, Austurás, Árbakka og Árbæjarhjálegu - gestir okkar í ferðinni voru þær mæðgur frá Lækjarbotnum Nína og Þórunn.
 
Ferðin byrjaði í Austurkoti hjá þeim Páli Braga og Hugrúnu sem eru rétt austan við Selfoss.  Páll Bragi tók höfðinglega á móti okkur, sýndi okkur aðstöðuna og fór í gegnum allt hesthúsið og sagði okkur frá hrossunum sem hann er að vinna með. Þar var margt áhugaverðra gripa m.a. fallegur leirljós stóðhestur Heiðar frá Austurkoti og gráskjóttur stóðhestur Tónn frá Austurkoti undan Kletti frá Hvammi sem miklar vonir eru bundnar við og um hann hefur verið stofnað hlutafélag. Páll Bragi fór svo á tvö glæsileg unghross sem hann er að temja, 5 vetra gráa hryssu undan Kjarna frá Þjóðólfshaga og 4 vetra rauðskjótta hryssu undan Álfi frá Selfossi, sú heitir Álfadrottinging og á greinilega mikla framtíð fyrir sér.
 
 Tónn frá Austurkoti
 
Næst var komið við hjá Hauki og Ragnhildi í Austurási, sem er 8 ha jörð úr Austurkoti, aðstaðan þar er stórglæsileg ný 20x80m sambyggð reiðhöll, hesthús, dótageymsla og íbúð. Haukur  og Ragga sýndu okkur aðstöðuna sem er sú flottasta sem sést hefur og hrossin sem þau eru að vinna með, meðal þeirra var stóðhesturinn Galdur frá Grund sem er undan Baldri frá Bakka sem mönnum þótti áhugaverður.  Sigursteinn Sumarliða sýndi okkur svo efnilega Orradóttur og stóðhestinn Bjarkar frá Blesastöðum í reið.
 
Glæsileg aðstaða í Austurási
 
Að vanda var snæddur hádegisverður í Árhúsum á Hellu og eins og alltaf var hakkabuff með lauk og eggi, staðgóður réttur í svona erfiðar ferðir.
 
Næst var komið við hjá Huldu og Hinriki á Árbakka.  Hulda sýndi okkur hrossin og aðstöðuna en Hinni var rétt ókominn með soninn úr keppni í meistaradeild unglinga.  Í hesthúsinu var hver gæðingurinn á eftir öðrum eins og vænta mátti en helst var staldrað við stóðhestana Straum frá Breiðholti og Hnokka frá Fellskoti sem báðir eru undan Hrynjanda frá Hrepphólum.  Einnig var skoðaður Náttar frá Þorláksstöðum undan Ófeigi frá Þorláksstöðum hestur með gríðarlega langt bak og var haft á orði að hægt væri að ferðast með fjölskylduna á baki og hnakktösku að auki.  Hinni kom svo og sýndi okkur Hnokka í reið, einhverjir hafa væntanlega séð þá félaga í slaktaumatöltinu í meistaradeildinni um daginn.  Hnokki fór um á tölti, brokki og stökki - hvert öðru glæsilegra.
 
Bakið á Náttari frá Þorláksstöðum skoðað
 
Að lokum var svo komið við hjá Kristni og Marjolijn í Árbæjarhjálegu, Kristinn tók á móti okkur úti í móa þar sem hann sýndi okkur ræktunarhryssur og ungviði.  Svo var farið inn og Marjolijn og þær systur Hekla og Rakel sýndu okkur nokkur hross í reið sem þær voru að vinna með.  Kristinn fór svo yfir hesthúsið með mönnum og sagði undan og ofan af því hvað þau væru að fást við.  Aðstaðan hjá þeim er til fyrirmyndar í nýrri 20x60m stálgrindarskemmu og gjörbylting frá því sem áður var.
 
Kristinn tók á móti hópnum úti í stóði
 
Við kvöddum svo Andvarafélaga og hjónin í Árbæjarhjálegu þar sem þeir bræður frá Ólafsbergi voru að semja um kaup á trippum og komum okkur í hlýjuna í Mið-Setbergi.
Ath þið getið smellt á myndirnar til að stækka þær og séð fleiri myndir hér
 
Á sunnudaginn fórum við svo til Eiðs í Hrólfstaðahelli og kíktum á hvernig honum gengi með trippin Eldingu og Loga, reyndar vorum við búin að heyra í honum í vikunni og hann lét okkur vita að lítið vit væri yfirhöfuð í að leggja vinnu í Loga - hann kæmist ekki yfir hræðsluköstin svo létt og mikil vinna gæti verið í að ná honum góðum.  Klárlega ekki skapgerð sem við viljum í okkar hrossum þannig að við ákváðum að við skyldum losa okkur við hann og fór svo að við tókum hann og keyrðum niður á Skeið og gáfum hann, þeir eru ekki svo vandlátir á hross þarna á Skeiðunum....  Nei bara djók, við höfum trú á að með natni og vinnu megi gera hest úr honum og Leifur Stefáns í Kálfhóli var til í að prófa hann þannig að við gáfum honum hann - nú ef hann gefst upp á honum þá fær hann bara kúlu í hausinn!
Eiði leist hinsvegar vel á Eldingu, hún væri reyndar með skap en geðgóð og ljúf og ekkert mál að tjónka við hana. Honum fannst laus í henni gangur, langt frá því eins klárgeng eins og pabbi hennar - sem Eiður hafði gangsett á sínum tíma.
 
Eftir að við höfðum losað okkur við Loga komum við á Lækjarbotnum og sóttum Þrumu litlu, sem hafði verið þar í tvær vikur í félagsskap Páfa og Púka frá Lækjarbotnum á meðan hún var að venjast undan. 
 
Þruma frá Mið-Setbergi ásamt félögunum Páfa og Púka frá Lækjarbotnum
 
Það var mikið fjör hjá þeim og Þruma fór um á svifmiklu brokki, kíkið á vídeóið. 

Þruma frá Mið-Setbergi