22. febrúar 2015

posted Feb 22, 2015, 7:59 AM by Jón Pétursson   [ updated Feb 22, 2015, 8:04 AM ]
Helgin 6-8 febrúar var lítið um að vera, Holla fékk lánaða kembivélina hjá Jónínu á Botnum og kembdi svarta ull í gríð og erg. Nonni dundaði aðeins við tiltekt í skemmunni en annars var bara slappað af.

Helgina 13-15 febrúar var nóg að gera, Nonni fór í skemmunna og byrjað að rífa mótorinnn í fjórhjólinu í sundur en hann bræddi úr stangarlegu og þarf að skipta um sveifarásinn, Nonni hefur verið að viða að sér varahlutum í rólegheitum og er nú er komið að því að setja saman.

Glöggir taka ábyggilega eftir því hvað efsti hluti stimpilstangarinnar fyrir miðri mynd efst er dökkur en hún hefur ofhitnað þegar legan í stimpilboltanum bræddi úr sér

Holla fór í spuna á laugardeginum og bakaði svo flatkökur og kleinur með Möggu á Vindási á sunnudeginum.
Við stefndum á að kíkja á hvernig gengi með taminguna á Gjafari en það rigndi eldi og brennisteini á laugardeginum og allt í dullu á sunnudeginum þannig að við frestuðum því fram á næstu helgi.

Helgina 20-21 febrúar fórum við austur á föstudagskvöldinu komum við í smá kaffisopa á Lækjarbotnum og fórum svo með nýja hraðastýringu fyrir hitaveitudæluna á Vindás, tölvan í henni klikkaði þegar rafmagnið fór í vetur og var hún send út til framleiðandans og nú er ný komin í staðinn.
Við kíktum á Gjafar á laugardagsmorgninum en hann er nú búinn að vera rúman mánuð hjá Hirti. 

 
Hjörtur leggur á Gjafar

Veðrið var ekki spennandi fyrir sýningu -10°C og rok en Gjafar var samt ótrúlega stapíll og þjáll og verður ábyggilega mikill gæðingur. 
Lundin er sem áður frábær og hann gerir allt sem hann er beðinn um og er nú farinn að brokka ef hann er beðinn um það og leitar frekar í brokkið en ekki lengur í stökk ef hann er krafinn um of sem þýðir væntanlega að hann er að styrkjast og þjálfast á gangi.  
Hann er líka að sækja í sig vilja en brokkinu fylgir smá bindingur á tölti en ekkert til vandræða.

Gjafar frá Mið-Setbergi 21. febrúar 2015



Við sóttum gráu kindurnar tvær sem við vorum með undir gráum feldblönduðum hrúti í Hrólfsstaðahelli - það verður spennandi að sjá hvað kemur undan þeim í vor. 
Veðurstöðin hefur verið að stríða okkur í langan tíma en hún frýs annað slagið og hættir að senda upplýsingar út á netið eins og einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir, það stendur nú vonandi til bóta Nonni er búinn að panta nýjan loggara í hana.
Við fórum í bæinn seinnipart laugardags þar sem spáin fyrir kvöldið og sunnudaginn var afleit og engu ferðaveðri spáð.
Comments