Laugardagurinn var tekinn snemma í sveitinni - við renndum á Vindás, fengum kaffibolla og skelltum okkur svo út í gamla fjós, Pétur hélt áfram að undirbúa benzann fyrir sprautun og Nonni og Bragi kíktu á rafmagnið því nú á að koma upp nýrri þriggja fasa töflu í útihúsin um næstu helgi. Holla og Nonni renndu seinnipartinn niður á Hellu eftir garni fyrir frúnna því að það vantaði smá uppá peysuna sem hún er að prjóna, nú er það léttlopinn.
Pétur prófar lopapeysuna sem Holla prjónaði á Nonna
Um kvöldið komu Guðlaugur og Jónína í kvöldmat, en allir heimilismenn hjá þeim voru á Holtablótinu, og sátu kellurnar og prjónuðu á meðan karlarnir fóru yfir alvöru lífsins - þ.e. skoðuðu traktorsblöð og svoleiðis.
Sunnudagurinn var rólegur, Nonni og Pétur fóru og gengu frá á Vindási og gerðu klárt til að fara með Kerru og Garp í bæinn, stefnan er svo að taka Lúkas og Herborgu um næstu helgi.
Holla sat í bústaðnum og kláraði peysuna og gekk frá. Eftir að hafa komið hrossunum á kerruna og heyrúllu á pallinn renndum við á Lækjarbotna og sóttum Tóta og bleikjuskammt fyrir mötuneyti skóla í bænum og svo var lagt í hann.
|
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >