21. nóvember 2011

posted Nov 21, 2011, 2:06 PM by Jón Pétursson   [ updated Nov 22, 2011, 1:40 AM ]
Árni, Guðrún og Rakel komu með okkur austur á föstudagskvöld og með þeim var líka Klara vinkona Rakelar.
  
Á laugardagsmorgun fóru Holla, Nonni og Árni niður að Rjóðri til Grétars dýralæknis að sækja hormónasvampa sem við setjum um næstu helgi í kindurnar sem við ætlum að sæða til að samstilla þær eins og það er kallað. Við notuðum tækifærið og kíktum á gám sem Grétar breytti í fóðurstöð fyrir hrossin sín sem hann er með í lausgöngu þ.e. hann tekur þau ekki á hús á veturnar heldur notar hann sjálfvirkan fóðrara sem þau ganga við.

Sjáfvirka fóðurstöðin hans Grétars 

Eftir þetta fóru Nonni og Árni að smíða milliloft í vélaskemmuna sem við erum með á Vindási en Guðrún og Holla fóru með stelpurna niður á Lækjarbotna að skoða kanínurnar og hin dýrin. Holla fór síðan á Vindás og bakaði sörur með Möggu og Stínu en Guðrún fór með stelpurnar niður að á að veiða og náðu þær stuttu í sitthvorn fiskinn og voru heldur ánægðar með það.
Krakkarnir þurftu að fara í bæinn undir kvöld og voru svo elskuleg að skilja húsið eftir galopið þegar þau fóru og þegar við komum inn í bústað seint um kvöldið eftir að hafa borðað rosalega gott heimatilbúið saltkjöt á Vindási, tók á móti okkur það skemmtilega verkefni að veiða mýs sem höfðu gert sig heimakomnar í bústaðnum. Við náðum þremur þá um kvöldið og sú fjórða var í gildru um morguninn. 

Á sunnudag fórum við í að raða dóti upp á geymsluloftið sem er um 30 m2 þannig að það tekur vel við. Nú ættum við að koma öllum vélunum inn fyrir veturinn og gröfunni jafnvel líka svo að Nonni geti dittað að henni í vetur. Það myndast líka vinnupláss til að vinna í Willysinum sem er árgerð 1946.

Við röðuðum dótinu á vörubretti og lyftum þeim upp á loftið með göflunum á stóra John Deere

Bragi og Gummi lögðu frárennsli frá hlöðunni á Vindási og kláruðu að keyra inn hrauninu í botninn um helgina þannig að þá er bara eftir að keyra fínt efni ofaná, hækka hurðargatið á austurhliðinni og smíða fyrir það nýja hurð. 
Það var léttir að það var engin mús í gildrunum þegar við komu inn í bústað undir kvöldið en það kemur í ljós næst þegar við förum austur hvort við höfum náð þeim öllum - kærar þakkir krakkar!

Comments