21. mars 2011

posted Mar 21, 2011, 3:49 PM by Jón Pétursson
Við skelltum okkur austur á fimmtudagskvöldið þar sem Holla hafði ákveðið að fara í prjónakaffi til Svanhildar í Holtsmúla, þar var mættur stór hópur kvenna.
Mikið var spjallað og prjónað en þetta hefur verið haldið tvisvar á ári til að hrista saman konurnar í sveitinni skemmtilegt framtak.

Föstudagurinn var tekin snemma og kíktum við á búfénaðinn, Holla fór svo á Vindás og sat með Möggu og spjallaði einnig settu þær rennilása í 3 peysur. Um kvöldið fór svo Nonni ásamt Braga og Trausta í saltað hrossakjötsát á vegum Karlakórs Rangæinga í Hvolnum á Hvolsvelli en Holla, Magga, Stína og Aníta Eva voru á Vindási á meðan.
 
Trausti, Toni bróðir Braga, Eiður í Helli, Kjartan í Hjallanesi, Bragi og Pétur mættir í hrossakjötsveisluna - á myndina vantar Bjarna Matt sem var líka með strákunum
 
Laugardagurinn var tekinn snemma, Holla prjónaði og Nonni las dómsmál og um hádegi renndum við svo í Rangárhöllina ásamt Guðlaugi, Jónínu, Tótu og Helgu í Flagveltu og sáum stóðhestasýninguna. Margir flottir hestar þar á meðal Hersveinn frá Lækjarbotnum sem við eigum undan meri á 4 vetri, Spói frá Hrólfsstaðahelli sem við eigum undan meri á 3 vetri,  Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu sem við fáum vonandi folald undan í sumar og Kórall frá Lækjabotnum sem Holla er æst í að halda undir næst.  Flott sýning í alla staði.
 
Guðlaugur og Kórall fyrir utan Rangárhöllina 
 
Sunnudagurinn var tekin rólega fram að hádegi, Nonni las dómsmál og Holla prjónaði en svo komu Magga, Trausti, Stína og Aníta í heimsókn í kotið.
Við lögðum af stað um miðjan dag en veðrið var ekki uppá það besta þessa helgina, snjóaði og snjóaði.
 
Myrka kvartaði ekki undan snjónum í sveitinni, bara gaman hjá henni - Á hinni myndinni er hrúturinn Eðall að gera sig líklegan til að stanga hana
 
Við fórum með vítamín í hrossin og gáfum þeim brauð og kúlur, kíktum við í lausgöngunni á Botnum, en þar voru Siggi og Tóti við rúning. Rúlluðum við svo í bæinn í rólegheitunum. Ekki ætlar að verða veður til að taka hestana með í bæinn í bráð.  Þetta er þriðja helgin sem veðrið er að stríða okkur og Landvegurinn illa fær og við nennum ekki að taka einhverja sénsa, veðrið fer nú vonandi að skána svo að Holla og Fanney geti farið að skottast á bak í bænum svona áður en sumarið kemur.
 
Comments