21. mars 2010

posted Mar 21, 2010, 3:52 PM by Jón Pétursson   [ updated Mar 22, 2010, 6:40 AM ]
Á laugardaginn var farin árleg vísindaferð hrossaræktarfélags Andvara. Ferðin byrjaði í Dallandi við Hafravatn og þaðan var farið að Skeiðvöllum í Holtum þar sem að við hittum hópinn ásamt Gulla og Nínu á Lækjarbotnum. Siggi Sæm og Lisbet tóku vel á móti okkur og var þar margt fróðlegt að skoða. Meðal annars voru okkur sýnd í reið tvö myndarleg systkini ættuð undan Suðra frá Holtsmúla.
 
Siggi sýnir okkur járningaaðstöðuna sem var fyrsta flokks  -    reiðhöllin á Skeiðvöllum er stór og glæsileg
 
Næst var farið í hádegismat í Árhús á Hellu í hefðbundið hakkabuff með lauk og eggi (ekta hrossakjöt en ekki af gráu). Þaðan lá leiðin að Syðri Gegnishólum til Olil Amble og Bergs Jónssonar
 
Hópurinn vel mettur fyrir utan Árhús
 
Bergur tók á móti hópnum og sýndi okkur hvað þau Olil eru að fást við - Bergur reyndist ótrúlega fróður um öll hross sem hjá þeim eru. Því næst var farið með okkur í reiðhöllina þar sem Bergur sýndi okkur ungan stóðhest undan Natani frá Ketilsstöðum og svo þrjú efnileg hross í reið. Að lokum sýndi hann okkur Gandálf frá Selfossi í reið og fór hann glæsilega um en ekki var mikið varið í hann í útliti auk þess sem hann er grár sem er náttúrulega frágangssök ein sér.
 
 
Bergur í reiðhöllinni með ungan Natansson  -  á hinni myndinni er Kristinn Hugason að lýsa sínu mati á folanum og Gulli horfir yfir öxlina á honum
 
Frá Gegnishólum lá leiðin að Grænhóli til Gunnars og Kristbjargar.  Þar byrjaði sýningin í reiðhöllinni þar sem okkur voru sýndir þrír ungir og glæsilegir Gárasynir sem reyndust vera í eigu Andvaramannanna Gauts og Kristins Hugasonar. Gunnar fræddi okkur um ræktunina á bakvið Gára sem stefnir í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi þrátt fyrir ungan aldur og söguna af því hvernig hann eignaðist ættmóðurina Tign frá Enni.  Einnig voru okkur sýndar þrjár ungar merar undan Gára að okkur minnir mig í reið.
 
Þrír glæsilegir folar undan Gára frá Auðsholtshjálegu og á hinni myndinni er Arnoddur frá Auðsholtshjálegu sem er undan Þóroddi frá Þóroddstöðum 
 
Hjá Gunnari skoðuðum við meðal annars Hersvein frá Lækjarbotnum sem hann keypti af þeim Guðlaugi og Daníel Jónssyni í Pulu - til gamans þá er Herborg okkar undan honum.
Einnig voru okkur sýnd systkini undan Trú frá Auðsholtshjálegu sem er undan Orra frá Þúfu og Tign frá Enni. Hesturinn var undan Þóroddi og heitir Arnoddur en við höfum haft augastað á honum á merina sem Nonni fékk afnot af í afmælisgjöf frá vinum okkar á Lækjarbotnum.  Að lokum voru glæsilegar veitingar eins og þeim hjónum er einum lagið.
 
Á heimleiðinni eftir að við höfðum skutlað Gulla og Nínu heim kíktum við í heimsókn til Guðmundar og Lóu í Heysholti og Nonni sagði þeim m.a. af fyrirlestrinum sem hann fór á á fimmtudag hjá hestamannafélaginu Herði þar sem kynnt var Active Stable hugmyndafræðin sem byggir á einskonar lausgöngu hesthúsi og sjálfvirkum fóðrurum, en það er ekki spurning að hún er akkúrat sniðin fyrir frístundafólk eins og okkur og hjónin í Heysholti - en það er alveg óumræðanlega fúlt hvernig landeigandinn heldur okkur í fjötrum þannig að við getum ekki gert aðstöðuna sem okkur dreymir og haft hestana hjá okkur í Mið-Setbergi í stað þess að vera upp á aðra kominn og með þá á eilífum þvælingi - en það er önnur saga sem alltaf kemur manni í vont skap...
 
Um nóttina hófst svo gosið á Fimmvörðuhálsi eins og við fórum í gegnum í síðustu dagbókarfærslu. Á sunnudeginum fórum við út á Vindás og ræddum hvort þyrfti að reka féð og hross á hús en ákveðið var að fylgjast með öskufalli og gefa bæði kindum og hrossunum innandyra. Við urðum annars ekkert vör við gosið nema þegar horft var til fjalla í austri mátti greina örlítinn bjarma og það var eins og það væri gulbrúnt mengunarský yfir fjöllunum en það var bölvað rok allan daginn þannig að eiginlegur gosmökkur sást ekki.
Nonni lagði svo rafmagn út í litlu vélaskemmunni á bakvið hús í Mið-Setbergi þannig að nýja rafstöðin fyrir rafmagnsgirðinguna gæti verið þar.
Svo var rúllu skellt á pallinn á Fordinum og haldið heim á leið með viðkomu á Lækjarbotnum þar sem við tókum Tóta með okkur í bæinn.
 
 
Comments