Ekki varð úr að Siggi Sig mætti með Þrumu í dóm á Hellu þann 12. eins og búið var að skrá hana þannig að ferðin okkar austur á miðvikudaginn að sjá sýninguna varð fíluferð, hann tjáði okkur svo þegar við náðum í hann að hann stefndi með hana á miðsumarsýningu - svona er lífið í hrossaræktinni...
Við fórum svo aftur austur á fimmtudagskvöldinu með viðkomu í Garðheimum og keyptum okkur nokkur eplatré og grænmeti.
Á föstudeginum plantaði Holla grænmetinu í traktorsdekkið og tók svo til í jarðaberjakassanum, en Nonni sló flatirnar - ekki vanþörf á því þær voru kafloðnar.
Flötin nýslegin og á hinni myndinni er traktorsdekkið með grænmetinu
Tjaldurinn var búinn að verpa á miðjum veginum upp í bústað nokkra metra fyrir utan hliðið hjá okkur við þorðum ekki öðru en að færa eggin út í kant.
Tjaldurinn er alsæll með þessa breytingu og lagðist á eggin eins og hann hefði verpt þar.
Maríuerlan hefur verið undanfarin ár á svölunum hjá okkur en núna breytti hún út af vananum og er búin að hafa af okkur heitapottinn allavega næstu vikuna, hún verpti á milli trékantsins og loksins. Sem betur fer fyrir hana er potturinn eiginlega bara til skrauts eftir að rennslið til okkar var minnkað þannig að ekki er til vatn í framhjáhlaup til að halda uppi hitanum á því.
Frumlegur staður fyrir hreiður ekki satt, við ákváðum að best væri að hleypa úr pottinum áður en ungarnir fara á stjá.
Á laugardeginum fórum við yfir girðinguna í hestastykkinu, tengdum brynninguna og settum reiðhestana þangað, við tókum Krók litla undan Kerru og fengum að setja hann með veturgömlum tittum hjá Guðlaugi og Nínu en þeir verða geltir í lok næstu viku.
Krókur frá Mið-Setbergi er veturgamall undan Kóral frá Lækjarbotnum og Kerru frá Álfhólum - stór og flottur foli
Við renndum á Hellu og versluðum aðeins og í bakaleiðinni kíktum við í Hrólfstaðahelli og Holla valdi sér kettling sem við fáum næstu mánaðarmót.
Algjörar dúllur - Holla valdi gráu ljótari læðuna
Um kvöldið settum við eplatrén niður og völdum þeim stað með trjánum sem við fengum hjá Guðmundi í Heysholti og settum niður í haust, nú eru þar sjö eplatré þanngi að það verður engin smá uppskera í haust!
Eplatrén eru á skjólgóðum stað á móti suðri á flötinni í Furudal austan við húsið - komin eru blóm á nokkur trén þannig að það er von í epli í haust
Á sunnudeginum tókum við Von og Skjóttu merina hans Gumma og fórum með þær í girðinguna sem Gjafar hefur í sumar í Hjallanesi. Um kvöldið sóttum við svo kappann og settum hann í merarnar, hann er kominn með tíu merar sem hann fær til að siða sig í sumar. Gjafar frá Mið-Setbergi er tveggja vetra graðfoli undan Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu og Vímu frá Lækjarbotnum og er mjög hár í kynbótamati með 121 stig - svo er eftir að sjá hvort það er verðskuldað en hann lofar góðu er í útliti ekki ólíkur pabbanum sem er landsmóts- og heimsmeistari og hann fer um á tölti og skeiði þannig að gangur ætti að vera laus í honum.
Gjafar kominn í merarstóðið - flottur!
Á mánudeginum var 17 júní skemmtunin á Brúarlundi, byrjaði með hópreið síðan keppni í 3 flokkum óvenju fátt á baki þetta árið kannski vegna þess að veðrið var ekki alveg uppá það besta hvasst en hann hékk þó þurr.
Flaggað í tilefni dagsins í Mið-Setbergi og á hinni myndinni leggur hópreiðin af stað við Brúarlund
Frún var dregin í þríþraut og vann hana eftir bráðabana í stígvélakasti og í verðlaun fékk hún að hún þarf að sjá um þríþrautina á næsta ári.
Annars var frúin í prjónaskap og eru húfur í neonlitum á framleiðslulínunni vonandi fá þær góðar móttökur á Skeiðvöllum.
Nýjasta nýtt hestahúfur í neonlitum - þið ættuð svo að sjá bleika og gula litinn Sigurjón í Fellsmúla falaði þau Abel og Eldingu aftur í sumar til að nota í hestaferðir hjá Eldhestum og kom hann og sótti þau á mánudagskvöld, við notuðum tækifærið og buðum honum að fá Herborgu líka sem hann þáði - þær Elding og Herborg koma til með að hafa gott af notkuninni en þær eru báðar frekar klárgengar og þurfa þjálfun til að auka í þeim rýmið á tölti og Abel er í uppáhaldi hjá Sigurjóni. Frárennslið frá þakinu og brynningunni við skemmuna var stíflað og hestagerðið allt á floti svo að Nonni fór með gröfuna og gróf frá því og við það brast stíflan og nú ætlar hann að framlengja rörið svo að þetta gerist ekki aftur Það bunaði vel úr rörinu þegar stíflan brast Hér eru svo til gamans myndir af flottum lömbum úr okkar ræktun sem kíktu við með mömmum sínum þegar Nonni var við hestagerðið - mömmurnar fengu smá nammi og Nonni náði að mynda lömbin á meðan Hrúturinn hennar Sníkju er svart flekkótur og botnóttur í grunninn og svo er móbotnótta gimbrin hennar Sóldísar |
Mið-Setberg ræktunarbú > Dagbók >