Við fórum austur á miðvikudagskvöldi, Nonni á Fordinum með fullan pallinn af rúlluplasti og frúin á Krúsernum með hestakerruna nú varð að fara á báðum bílunum þar sem Nonni var búinn að taka frí á föstudaginn en Holla þurfti að fara að vinna.
Við byrjuðum á að sækja Tímon á Lækjarbotna þar sem hann var að jafna sig eftir geldinguna frá því á þriðjudaginn. Eftir að hafa sleppt honum í hagann var farið með plastið á Vindás.
Fimmtudagurinn 17 júní var haldinn hátíðlegur á Brúarlundi og að sjálfsögðu létum við okkur ekki vanta þar - ekki var nú sami bragur á skemmtuninni og venjulega, þar sem sveitungarnir koma vanalega ríðandi og hátíðin hefst á hópreið og smá hestamóti en vegna hestapestarinnar var tekið á það ráð að láta sveitungana, unga sem aldna sprikla, í allskyns leikjum. Restin af deginum var frekar róleg nema hvað Nonni sló og hirti flatirnar í Mið-Setbergi og garðinn á Vindási á litla Dýrinu og svo rúllaði Holla í bæinn um kvöldið.
Á föstudagurinn fór Nonni í að setja glussadæluna saman og raða massanum saman en viti menn dælan spítti aftur úr sér ventli og braut stimpil þegar ventillinn lenti á milli þannig að ekki var annað í stöðunni en að rífa hann í spað einu sinni enn og nú verður dælunni hent í hausinn á þeim sem seldu gallaða ventlaboxið.
Eftir hádegið fóru Nonna ásamt Guðlaugi og Gumma með Vímu frá Lækjarbotnum niður í Grænhól undir Arnodd frá Auðsholtshjáleigu en Nonni fékk í fimmtugsafmælisgjöf að halda merinni. Nonni varð ekki fyrir vonbrigðum með Arnodd en hann var glæsilegur, háfættur og bolléttur og vel til hafður eins og öll hross í Grænhóli en merin var ekki að ganga þannig að hún hleypti honum ekki að sér en hún ætti að ganga á næstu dögum. Það var um að gera að nota ferðina og ákvað Guðlaugur að fara með Töru undir Stála frá Kjarri og komu þeir þar við í leiðinni.
Arnoddur rennir hýru auga til Vímu en hún var ekki tilbúin og vildi ekkert með hann hafa - en sjáið Guðlaug, hann getur ekki tekið augun af glæsigripnum Arnoddi!
Á föstudagskvöldið komu Holla, Pétur, Fanney og Sverrir austur og var slegið upp grillveislu. Fanney er á leiðinni til Englands á sunnudaginn, þar sem hún verður fram á haust sem aupair, og langaði hana í grill hjá mömmu áður en hún færi.
Laugardagurinn var tekinn snemma og settar niður kryddjurtir og grænmeti í ræktunarkassa og þvegnar nokkrar þvottavélar. Um hádegi komu Guðmundur og Lóa í Heysholti í kaffi og svo komu Beta og Kata í Litla-Setbergi yfir með Heklu í smá leiktíma með Myrku litlu. Pétur og Nonni fóru yfir á Víndás kíktu á sprautuklefann fyrir Bensann.
Holla og Pétur setja niður kryddjurtir og grænmeti í ræktunarkassann með hjálp Myrku
Sunnudagurinn byrjaði á smá smalamennsku á Vindási eitthvað af rollum var komið inn á tún var þeim smalað niður fjárhús og tækifærið notað og rúið af þeim áður en þeim var sleppt útí haga. Pétur, Gummi og Holla fóru svo í að taka til í fjósinu og gera sprautuklefann tilbúin til plöstunar á meðan Nonni smíðaði upp læsinguna á hurðinni á stóra Dýrinu. Um kvöldið rúlluðum við á Lækjarbotna sóttum dót fyrir Þórhall sem var að flytja til okkar en hann var á bíladögum á Akureyri um helgina og kom þaðan beint heim.