posted Feb 20, 2012, 4:44 PM by Jón Pétursson
[
updated Feb 20, 2012, 4:48 PM
]
Við tókum Perlu hennar Helgu systur Hollu með í sveitina þessa helgi þar sem Helga og fjölskylda fóru í bústað þar sem bannað er að vera með dýr - ekki leiddist Myrku að fá leikfélaga. Á laugardaginn fórum við í bíltúr ásamt Möggu og Braga upp að Hólum sem eru við Heklurætur. Heimafólkið var að stinga út úr fjárhúsunum þegar við komum en það vantaði ekki gestrisnina þar frekar enn fyrri daginn, hlaðið kaffiborð á augabragði, heimabakaðar kökur, heimagert smjör, flatkökur og pönnukökur með heima fleyttum rjóma þvílíkt lostæti.
 Burstabærinn á Hólum skartaði sínu fínasta í blíðunni
Á sunnudaginn fór Nonni með gröfuna niður á fjárhústún á Vindási og gróf eina könnunarholu til að kanna jarðhita. Nonni og Bragi voru búnir að skoða jarðfræðikort sem Nonni safnaði saman í vikunni og fannst þeim líklegt að þarna undir væri hiti. Rollurnar hafa krafsað grasið á þessum bletti og liggja mikið og sögur um að hita hafi verið í gömlu fjárhúsi sem þar stóð þar enda kom í ljós þegar komið var niður á fastan botn í 5 metrum að hitinn í holunni mældist 34°C sem lofar virkilega góðu - líklegt er að jarðvatn sé vel yfir 40°C við svona aðstæður. Næst er bara að taka fleiri holur og sjá hvar er heitast.
Holan orðin ansi djúp og grafan náði ekki neðar með góðu móti
Það varla sést í Gumma í holubotninum fyrir gufu og það rauk vel úr hrúgunni
Nonni reif Willys vélina í spað til að skoða hvort nokkuð væri bilað, hún er hjólliðug allar legur og strokkar eins og nýir. Hann tók svo blöndunginn, kveikjuna, olíu- og bensíndæluna með í bæinn til að hreinsa og laga. Eina sem hann fann að var að tveir ventlar voru stirðir og soggreinin var brotin, það verður auðvelt að laga það. Holla dundaði sér í bústaðnum í tiltekt og prjónaskap. Okkur var boðið í kvöldmat á Vindási í saltkjöti og baunir og svo fórum við í bæinn.
|
|