Enn einu sinni er frúin ekki að standa sig í blogginu en það er búið að vera meira en nóg að gera í sauðburðinum virðast nánast allar ætla að bera á fyrra gangmáli.
Um síðustu helgi var lítið annað gert en að taka á móti lömbum. Það var mikill gestagangur hjá okkur en Guðrún, Árni og Rakel komu um síðustu helgi og Pétur og Þóra voru frá mánudegi fram á miðvikudag,

Hér er Sóldís Gulludóttir með tvö flott lömb, lambið fjær er svart með blett á hausnum og það sem nær er móbotnótt gimbur
Nonni fór á laugardag með gröfuna niður á Lækjarbotna og við kíktum í leiðinni á Gjafar, búið var að reka tittina heim og Eiður kom og klippti hófana á þeim. Við notuðum tækifærið og Nonni fór með Gjafar í smá frumtamningu í reiðkotið áður en hófarnir voru klipptir og það er það fyrsta sem átt hefur verið við hann - hann stóð sig virkilega vel og er fljótur að læra og á nokkrum mínútum var búið að setja á hann múl og taka upp á honum lappir. Á sunnudaginn fórum við svo aftur með hann í reiðkotið og Nonni setti aftur á hann múl og vandi hann við bandið og svoleiðis. Gjafar er mjög kjarkaður og nokkuð ör sem auðveldar honum að læra. Við fórum svo með þá í stykki út við Þúfu þar sem þeir verða í sumar.
Nonni og Gjafar í reiðkotinu á Lækjarbotnum og á hinni myndinni má sjá þegar Gjafar tekur sprettinn þegar tittunum var hleypt út kerrunni við Þúfu
Nonni tætti kartöflugarðinn sem er á bakkanum niðri við Þjórsá
Massinn var notaður í að búa til götur í kartöflugarðinn
Við fórum með Garp og Lúkas til Eiðs í Helli á laugardaginn og hann járnaði þá fyrir okkur, við fengum svo að geyma þá á Botnum yfir nóttina þar sem til stóð að fara árlega reiðtúrinn frá Lækjabotnum að Fellsmúla á sunnudag. Reiðtúrinn var svo flautaður af þegar Halldóra veiktist skyndilega þannig að Holla reið ein heim að Vindási á sunnudeginum - Halldóra er síðan búin að jafna sig sem betur fer.
Holla kemur upp Landveginn á Garpi með Lúkas í taumi
Holla var svo alla vikuna á morgunvöktum í sauðburðinum og fram á kvöld þegar svo bar við.
Núna um hvítasunnuhelgina komu Fanney, Sindri og foreldrar hans Herdís og Finnur ásamt systur Sindra og frændsystkynum, einnig komu Anna og Þór pabbi Hollu - þau höfðu gaman af að sjá sauðburðinn og fengu bæði að sjá rólega og svo erfiða gemsafæðingu á innan við klukkutíma.
Á sunnudag komu einnig Lúlli vinnufélagi Hollu og kærastan hans Linda og voru hjá okkur fram á mánudag.
Lúlli og Linda með Bolla heimalning
Á mánudeginum komu Kata Hauks vinnufélagi Hollu með mann og börn eyddu þau deginum með henni í fjárhúsinu og fékk tveggja ára sonur hennar að keyra traktorana með Nonna og var ekki að sjá að honum leiddist mikið.
Elfa vinkona Fanneyjar er mætt á svæðið og fóru þær stöllur beint í fjárhúsið tóku vaktina meðan Holla og Nonni renndu í bústaðinn í kaffi.
Elfa og Fanney með Bolla á milli sín
Nonni heflaði svo veginn upp að bústaðnum svo er bara smá kósístund áður en að hann fer í bæinn.
Fanney og Elfa verða Hollu til samlætis allavega fram á miðvikudag ekki slæmt að hafa hlaupaketti þar sem frúin er orðin svo gömul og stirð.