20. júní 2011

posted Jun 20, 2011, 12:21 PM by Jón Pétursson   [ updated Jun 20, 2011, 1:49 PM ]
Við fórum austur á fimmtudagskvöldið og kom Fanney með okkur þessa helgi. Á föstudeginum settum við tvo hesta á kerru og fórum með þá niður á Lækjarbotna og svo riðu Holla og Fanney með Tótu og Sigga að Brúarlundi á árlega 17. júní skemmtun. Það var frekar hvasst og kalt en mannskapurinn lét það ekki á sig fá og var dagskráin með hefðbundnu sniði.
 
Mæðgurnar Holla og Fanney tóku þátt í hópreiðinni 
 
Eftir að dagskrá lauk var kaffi í samkomuhúsinu og voru hlaðin borð af kræsingum hjá þorrablótsnefndinni sem sér árlega um veitingar á hátíðinni. Seinniparturinn var tekinn rólega inni í Mið-Setbergi og eldaður góður matur og kúrt yfir sjónvarpinu.
Á laugardaginn var klárað að loka síðustu 250m af hagagirðingunni á Vindási og nú bættust í hópinn Sverrir, Villí og börn - við erum þá búin að girða tæpa tvo kílómetra í þessari törn. Nonni skaust á Laugarvatn um morguninn og kom til baka um miðjan dag. Holla fór í Neðra-Sel og sótti Kerru sem var þar hjá Kóral ásamt Möggu, Villí og Önnu og Nonni, Sverrir, Helgi og Gunnar ráku niður staura með undragræjunni góðu sem Nonni smíðaði - staur á 30 sek fresti lóðréttur og í línu, geri aðrir betur! 
 
 
Hér er video af sælunni í notkun
 
Bragi sá um að koma út gaddavír og neti. Eftir að hafa sleppt merinni í hestastykkið til reiðhestanna bundu skvísurnar upp síðustu metrana af girðingunni. Við enduðum í grillveislu á Vindási um kvöldið og fengum þessi fínu rif og meðlæti.
Á sunnudagsmorguninn dustaði Nonni öskuna og rykið af litla John Deere smurði og setti á hann sláttuvélina og sló svo garðinn á Vindási og fór svo á stóra John Deere og sótti tvo sturtuvagna af hrossaskít niður í Neðra-Sel og sturtaði öðrum þeirra í gamla kartöflubeðið inn í Mið-Setbergi og Gummi kom svo með tætarann og tætti skítinn saman við moldina. Magga á Vindási og Holla höfðu um morguninn klippt keisaraaspirnar sem við grisjuðum í vor niður í græðlinga. Seinnipartinn settu þær stöllur ásamt Fanneyju plast yfir beðið og ráku græðlingana niður og nutu aðstoðar Myrku eða þannig því hún var í því að draga græðlingana upp aftur - við vorum að giska á að það væru um 1000 stykki sem fóru í beðið - það verður svo aldeilis verkefni að finna þeim stað næsta vor.
 
Skíturinn kominn í beðið og búið að setja niður nóg af græðlingum skjólbelti í a.m.k. hálfan kílómeter ef allt lifir 
 
Nonni og Sverrir settu upp tvö hlið á girðinguna og Bragi kláraði að ganga frá netinu til hliðar við þau þannig að nú verður féð rekið úr túnunum og út í haga.
Eftir mat og tiltekt komum við við á Lækjabotnum og Nonni keyrði Crowninn í bæinn fyrir Guðlaug. Enn ein helgin búin - púff!
 
Comments