20. júlí 2010

posted Jul 20, 2010, 2:51 AM by Jón Pétursson
Við fórum austur á föstudagskvöld og tókum með ruddasláttuvélina sem okkur áskotnaðist um daginn, Nonni er búinn að vera að dytta að henni í bænum en nú er verið að leita að hnífum í hana og festingum fyrir þá á skaplegu verði. Perla hennar Helgu systur Hollu er í pössun hjá okkur á meðan verið er að taka húsið í gegn hjá þeim og leiddist þeim Myrku hreint ekki að komast í sveitina að leika.
 
Vinkonurnar Perla og Myrka í sveitinni 
 
Á laugardaginn fór Nonni til Guðmundar í Heysholti til að rúlla suðurtúninu en þar sem að heyið var fullblautt í múganum var ákveðið að Guðmundur snéri þeim og þeir myndu rúlla seinna um daginn, Nonni nýtti tímann og fór aftur út á Vindás og rúllaði þar einum 20 rúllum af heimatúninu.  Síðan fór hann aftur í Heysholt og rúllaði þar rétt tæpum 100 rúllum sem er helmingi meiri uppskera heldur en var af túninu áður en Guðmundur vann það upp í fyrra.  Eftir að þessu var lokið fór Nonni aftur á Vindás og nú var búið að raka saman á ærhústúninu og rúllaði hann þar 12 rúllum - Gummi fylgdi á eftir og pakkaði rúllunum án nokkurra vandræða.
 
Veðrið er búið að vera aldeilis frábært síðustu daga, sól og blíða.  Holla hefur nýtt blíðuna og setið út við prjónaskap og er nú vel viðbrennd.
Á fimmtudag náði hitinn 20,3 stigum, á föstudag 23,1, á laugardag 21,2°, á sunnudag 25° og á mánudag 19,4° - ekki amalegt!
 
Reiðhrossin hafast fínt við en við erum að reyna að halda í við þau og erum búin að hafa þau í aðhaldi í minni hestagirðingunni en um helgina hleyptum við þeim í stærra hólfið þar sem að lítil beit var orðin í því litla.
 
Abel og Lúkas fá knús frá Hollu - Hylling fær svo klór á bakvið eyrað, æ hvað það er gott...
 
Á sunnudagsmorguninn fór Nonni svo niður í Nefsholt við Laugaland og rúllaði þar 150 rúllum fyrir Eið í Helli en hann er að nýta túnið í Nefsholti.
 
Það er víðsýnt ofan af holtinu við Nefsholt 
 
Holla þurfti að fara í bæinn á sunnudagskvöld að vinna en Nonni var áfram fyrir austan enda kominn í frí.
Á mánudaginn kláruðu Nonni og Gummi í að hirða rúllurnar á Vindási og koma þeim í stæðu sem var eins gott þar sem að fuglinn var byrjaður að skemma þær.  Þegar því var lokið fór Nonni í að skipta um olíu og síu á stóra Dýrinu og um kvöldið fór hann svo niður á Lækjarbotna og rúllaði þar 17 rúllum en Kjartan í Hjallanesi hafið verið að rúlla fyrir þau þegar rúlluvélin hjá honum bilaði og kláraði Nonni restina.
 
Comments