20. ágúst 2012

posted Aug 20, 2012, 1:57 PM by Jón Pétursson   [ updated Aug 20, 2012, 3:04 PM ]
Sveitin sat heldur á hakanum þessa helgi þar sem okkur var boðið í brúðkaup á laugardag svo okkur fannst ekki taka því að keyra austur á föstudeginum. Teitur sonur Möggu og Valla í Flagbjarnarholti og Rúna giftu sig í Mosfellskirkju á laugardeginum svo var blásið til veislu í Fáksheimilinu í Víðidal um kvöldið - falleg athöfn í kirkjunni þar sem litli Magnús Valur var í aðalhlutverki frábær matur góð skemmtun í dýrindis veðri. 
Við stungum af eftir matinn og brunuðum við austur í Hrólfsstaðahelli þar sem haldið var upp á fimmtugsafmæli Önnu. Frábært fjör fram á rauða nótt og ekki klikkuðu veitingarnar þar frekar en vanalega - bæði í föstu og fljótandi formi. Það voru að mér taldist einir 6 gítarar á lofti og mikið sungið - held samt að við séum að verða of gömul í svona djamm fram á nótt. 

Gítarveislan mikla í partítjaldinu

Eftir hádegið á sunnudeginum fórum við með gröfuna niður á Lækjarbotna, Gulli og Siggi fengu hana lánaða m.a. til að grafa grunn fyrir Markús bróðir Sigga og eitthvað fleira á að gera. Eftir hádegi hélt Nonni áfram að leggja og tengja rafmagnið í skemmunni. Holla fór upp á Vörðuholt og ætlaði að ná í sveppi en það hefur sennilega ekki rignt nóg svo það var hálfgerð fýluferð, þá skellti hún sér í kartöflugarðinn og tók upp slatta eða svona fyrir vikuna. Stefnir í mjög góða kartöfluuppskeru hjá okkur þetta árið. 
Eftir að hafa yfirfarið veiðigræjurnar, bátakerruna og netin fyrir Veiðivatnaferðina um næstu helgi var bara að pakka saman og rúlla í bæinn, enn og aftur allt of stutt helgi.

Comments