1. mars 2009

posted Mar 1, 2009, 11:32 AM by Jón Pétursson
Við fórum ekki austur þessa helgi en Holla fór í langan reiðtúr með stórum hópi Fáksfélaga á Garpi á laugardaginn, riðið var úr Víðidalnum austur fyrir Elliðavatn og yfir í Guðmundarlund og niður í Heimsenda og áð þar.  Þaðan var svo riðið vestan með Elliðavatni til baka upp í Víðidal - Garpi lá mikið á fyrri part leiðarinnar og þurfti að vera fremstur í hópnum, honum var svo alveg sama þó hann væri síðastur þegar haldið var til baka enda orðinn vel þreyttur.
 
Nonni lónseraði svo Abel, Eldingu og Loga á meðan.  Abel á það til að taka í taumana og fékk hann því að taka á teygjunum en gafst fljótt upp á því.
Trippin voru líka lónseruð og núna með mélin upp í sér og í tvítaumi, það gekk vel með þau bæði og láta þau bara vel að stjórn og eru sátt við mélin.
 
Við fórum svo í sextugs afmæli til Sigga Sveinbjörns á laugardagskvöldinu, þar var mikið fjör og gaman að hitta gömlu félagana sem við höfum ekki séð í mörg ár. Gjöfin sem við gáfum Sigga vakti mikla lukku en Nonni teiknaði mynd af karlinum með dótakassann, en Siggi hefur í gegnum árin prófað ýmsar dellur en er nú dottinn í golfið.
 
Siguður Sveinbjörnsson 60 ára
 
Í dag fórum við svo með Loga og Eldingu í sitthvoru lagi í hringgerðið og settum mélin upp í þau og girtum hnakkinn á, Holla fór svo á bak þeim báðum.  Við létum Eldingu brokka lausa í hringnum með Hollu á baki en þorðum ekki annað en teyma Loga undir henni enda í fyrsta skiptið sem við förum með hann í hringgerðið og einhver fer á bak honum síðan við byrjuðum á honum.  Hollu fannst mikil orka búa undir í Eldingu og hún var ekkert að kippa sér upp við það þó hún færði sig í hankkinum og hvetti hana áfram, Logi hinsvega stífnaði allur og skaut upp hryggnum þegar hún fór að hreyfa sig í hnakknum - greinilega hræddur - og það var ástæðan fyrir því að við þorðum ekki að sleppa honum lausum með hana á baki - en við vinnum í því í vikunni, Eiður ætlar svo að taka þau um næstu helgi og verður gaman að sjá hvað honum finnst um fortamninguna.