1. maí 2012

posted May 1, 2012, 4:18 PM by Jón Pétursson
Við fórum austur á föstudagskvöldið og eftir smá stopp á Vindási fórum við í bústaðinn. 
Laugardagurinn var tekinn snemma og kláruðum við ásamt Vindásbændum um helgina að gera hlöðuna klára fyrir sauðburð sem ekki má seinna vera þar sem hann byrjar trúlega í vikunni.
Við stækkuðum hurðina inn í hesthús og smíðuðum rennihlera fyrir hana, sléttuðum gólfið og tókum til í hlöðunni. Um miðjan daginn var okkur boðið í kaffi og með því til Þórunnar á Lækjarbotnum en skvísan var að halda uppá 30 ára afmælið sitt - til hamingju með það Tóta. Á laugardagskvöldið skelltum við okkur á Ræktunarsýningu í Ölfushöllinni sem var mikið augnakonfekt, það er ótrúlega mikið til af frábærum hestum. Guðlaugur á Lækjarbotnum sló gjörsamlega í gegn á sýningunni þegar hann mætti ríðandi í gallabuxum með sína hreppstjóraásetu og tók á móti viðurkenningu fyrir að þau voru tilnefnd til ræktunarbús ársins 2011. Gulli hafði farið út í haga og gripið þann smalahestinn sem auðveldast var að ná og járnaði kvöldið fyrir sýningu og mætti á sýninguna meðal stífþjálfaðra sýningagripa hinna búanna sem runnu um höllina með svaka tilburðum. Hér er video af snilldinni

Gulli og Adam


Á sunnudagurinn fór Nonni og krossviðarklæddi rennihurðina stóru sem Gummi er að smíða fyrir hlöðuna á meðan Bragi smíðaði mót til að steypa þrep sem nota á í stiga niður í dæluhúsið.  Holla og Magga bundu hliðin fyrir burðastíurnar, kláruðu að taka til í hlöðunni og fóru svo ásamt Myrku og söfnuðu saman grjóti sem kom upp þegar við grófum tilraunaholurnar á fjárhústúninu.
Seinnipartinn fórum við inn í bústað og klipptum græðlinga af keisaraöspunum sem umlykja flötina og settum niður í fósturbeðið.


Holla klippti eina og eina grein af keisaraöspunum niður í græðlinga - Myrka heldur eins og venjulega að allt snúist um hana og bolta

Holla týndi líka saman rusl við bústaðinn en Myrka er búin að vera dugleg í vetur að safna saman spýtukubbum, plastflöskum og allskonar rusli sem hún ber uppá hól í búið sitt. 

Comments