1. maí 2009

posted May 1, 2009, 2:43 PM by Jón Pétursson   [ updated Sep 18, 2009, 3:44 AM ]
Jæja, þá er sauðburður hafinn hjá ræktunarbúinu Mið-Setbergi - í nótt fæddist drottningarlambið (fyrsta lambið) svört gimbur sem gæti reyndar orðið mórauð, mamma hennar er dökkmórauður gemsi sem heitir Þórunn og er undan morbotnóttu Gullunni sem týndist í fyrra og hrútnum Palla frá Vindási.
 
 
Drottningarlambið okkar árið 2009 og svo Magga á Vindási með fallegt grátt lamb, fleiri myndir úr sauðburðinum hérna
 
Í dag vorum við að dóla okkur innan um féð fyrripartinn en eftir hádegið fórum við niður á Lækjarbotna og héldum áfram með breytingarnar á hesthúsinu.
Við tókum Garp og Lúkas með okkur austur í gær enda ætlum við að vera í fríi fram yfir næstu helgi, við fáum að geyma þá hjá Valla og Helgu í Flagbjarnarholti til að byrja með en fáum svo pláss fyrir þá niður á Lækjarbotnum þegar hesthúsið er tilbúið.
 
Svo er tilvalið að smella með einni mynd af rúlluvélinni sem við vorum að kaupa í félagi með Guðmundi og Lóu í Heysholti, hún kemur norðan úr Svarfaðardal og er nú í Reykjavík og verður keyrð austur til okkar í næstu viku vonandi. 
 
New Holland 544 rúlluvélin er lauskjarnavél árg. 2000 og er með breiðum sóp og netbúnaði
 
Úr Heysholti er það helst að frétta að Guðmundur er núna önnum kafinn við að plægja suðurtúnið, það hefur líkast til ekki verið endurunnið í áratugi og var orðið mjög óslétt og gaf orðið litla uppskeru.