Nóg er búið að vera að gera hjá Hollu í sauðburðinum og dagarnir voru fljótir að líða og nú er fríið búið. Nánast allar kindurnar báru á fyrra gangmáli og einungis 9 voru eftir og um 20 gemsar óbornir þegar við fórum í bæinn á síðasta sunnudagskvöldi. Á laugardaginn þreif Nonni og málaði gólfið í skemmunni og skipti einnig um olíuþrýstingsskynjara í Cherokee. Um kvöldið kíktum við niður á Botna og skoðuðum m.a. lömbin hennar Elísabetu forystukindinni hans Guðlaugs en hún er með tvo flotta morflekkótta hrúta.
Elísabet með hrútana tvo, algjörir sperrileggir
Á sunnudaginn fór Nonni ásamt Eið í Hrólfsstaðahelli að Heysholti og settu þeir brú á skurðinn út við Þúfu en Eiður fær hólfið fyrir innan að láni til að beita á hrossunum. Gekk eins og í sögu hjá þeim að koma niður rörinu og moka yfir, nú er bara eftir að setja tveggja strengja girðingu til að útbúa rekstrarrennu að hólfinu og svo gera hlið á griðinguna út á veg.
 Brú komin yfir skurðinn við Þúfu
|