Helgin 16 - 18. janúar var strembin bæði líkamlega og andlega.
Við byrjuðum á Vindási á að úrbeina, hluta og pakka einu nauti á föstudagskvöldinu.
Holla ber sig faglega að við úrbeininguna
Síðan var haldið í bústaðinn og eins og venjulega þurfti að moka okkur þangað en Nonni affelgaði annað framdekkið á Dýrinu svo við urðum að klöngraðst skaflana upp að húsinu. Morgunin eftir kom í ljós að ástæðan fyrir affelguninni var að ventill í framfelgunni var af vitlausri gerð og eitthvað hafði rekist í hann og lekið með honum - við tókum dekkið með okkur í bæinn til að fá nýjan ventil.
Hér er smá video af mokstrinum sem var hellingsmál þar sem snjórinn var vel pakkaður.
Snjómokstur á John Deere
Á laugardeginum fór Holla í spuna á Brúarlund en Nonni fór á gröfunni og tók gröf fyrir Eldingu á meðan, við felldum hana svo seinnipartinn.
Hún var búin að vera með hita í viku og ekkert að lagast erum ekki viss hvað var að henni ofan í hófsperruna. Mikil sorg að missa hana en við erum búin að eiga hana frá því hún var folald, hún var hálfsystir Þrumu okkar.
Nonni búinn að taka gröf fyrir Eldingu
Á sunnudeginum fórum við frekar snemma í bæinn með Þrumu í kerru en hún verður til að byrja með í smá tamningu hjá Þresti vini okkar í Spretti - allavega þar til Holla tekur á hús.
Við festum kaup á 19 vetra gæðingi fyrir Rakel í vikunni sem hún ætlar að nota á námskeið í vetur en hann er alþægur, brúnn, lítill og sætur sem á að vera öllu vanur og heitir Styrkár frá Álfhólahjáleigu.
Rakel og Styrkár frá Álfhólahjáleigu
Helgin 23 - 25. janúar fórum við austur að vanda
Við komum með dekkið á traktorinn settum það undir og Nonni kláraði að moka í gegnum skaflinn inn að bústað
Snjógöngin inn að bústað ná upp á miðja rúðu á Fordinum
Á laugardaginn fengum við lánaða kerru á Vindási og fórum á Hárlaugsstaði og sóttum kindurnar tvær sem voru þar hjá mórauða hrútnum hans Palla í Fossi.
Um kvöldið var svo árlegt þorrablót Landsveitarinnar í Brúarlundi og létum við okkur ekki vanta frekar en áður, þar var fullt hús eins og vanalega góður matur og frábær heimatilbúin skemmtiatriði - að þessu sinni var það neðri sveitin sem var í skemmtinefnd.
Hér tekur Beggi sjónvarpsstjörnuna Palla á Galtalæk listavel
Helgin 30. janúar til 1. febrúar
Jæja fyrsta helgin í langan tíma sem við komumst inn í bústað án þess að moka - bara einn skafl sem Fordinn rann létt í gegnum.
Holla fór í spuna á Brúarlund á laugardag og Nonni snýkti sér kaffi á Lækjarbotnum á meðan og fór svo með Vindásbændum í að setja fullorðinsmerki í gemsana og smálömbin.
Verið að setja fullorðinsmerkin í gemsa
Veðrið var einstaklega fallegt á laugardeginum bjart og 14°C frost.
Fjallahringurinn er flottur séður frá Vindási - gosmengunin sést yfir fjöllunum sem gul slikja ef grant er skoðað
Við kíktum á hrossin og þau hafast vel við
Óðinn og Von - ekki langt í að Óðinn verði jafn stór mömmu sinni
Kíktum á nýju innréttingarnar í hesthúsinu á Botnum sem koma heldur betur vel út - engin smá breyting! Eftir breytingu verður pláss fyrir 10 hross í einshesta stíum.
Gulli og Tóta við nýju innréttingarnar
Tókum því svo létt eftir það og á sunnudeginum byrjaði enn að snjóa og voru komnir amk 10cm jafnfallnir þegar við fórum í bæinn.
Við fórum af stað í bæinn seinnipartinn og komum við á Lækjarbotnum og sóttum eina kanínu sem fékk að fljóta með í bæinn.