19. september 2010

posted Sep 19, 2010, 4:41 PM by Jón Pétursson
Nóg var að gera þessa helgina eins og þær flestar, Nonni renndi snemma á föstudaginn og rúllaði 22 rúllur af há í Heysholti, 12 á Vindási ásamt að rúlla 44 rúllum hjá Guðlaugi. Holla fékk svo far með Tóta austur á Lækjarbotna og stússaðist aðeins í hrossunum með þeim meðan Nonni kláraði að rúlla.
Laugardagurinn byrjaði rólega Nonni las næsta dómsmál og Holla prjónaði fram undir hádegi þá var farið til Eiðs í Helli og tamningin á Herborgu tekin út - hún er reynist vera þæg og góð með skemmtilegan vilja, það voru ekki lætin í henni alveg sama hvað Eiður gerði á baki lagaði múlinn og skók sér í hnakknum - lofar góðu eftir tæprar mánaðar tamningu.
 
Herborg frá Lækjarbotnum er undan Hersveini og Tinnu frá Lækjarbotnum 

Eldingu verðum við að fá að sjá seinna þar sem hún hafði verið bitin í munnvikið og ekki hægt að setja uppí hana beisli fyrr en hún jafnar sig á því.
Seinnipartinn fórum við ásamt Möggu og Braga í bíltúr í Mjóanes við Þingvallavatn og sóttum þangað Ford 2000 1970 árgerð sem líklega verður notaður í varahluti í 1967 árgerðina af Ford 3000 sem Nonni fékk hjá Guðlaugi um daginn.
 
Það vantaði hjólin undir Fordinn þannig að hann fékk flugfar hjá stóra dýrinu 
 
Þegar til baka var komið á Vindás um kvöldmatarleytið beið okkar læri með öllu ala Gummi og svo bauð Bragi uppá ís á eftir.
Sunnudagurinn fór í að þrífa rúlluvélina og sprauta grunnmálningu á járnið innan í henni sem var orðið bert af núningi og búa hana undir geymslu vetrarins - við erum búin að ákveða að heyskap sé lokið þetta árið.
Nonni hélt áfram að laga rafmagnið í skúrnum á Vindási og nú er búið að tengja útiljósið og díseldæluna, þetta smá kemur allt saman. Á meðan sótti Bragi flokkunarrennuna niður í fjárhús og kom henni fyrir í hlöðinni og byrjaði að undirbúa aðstöðu til að flokka lömbin frá þegar verður smalað um þarnæstu helgi.
Jæja komið sunnudagskvöld eina ferðina enn og tími til að koma sér í bæinn - það eru allt of fáir dagar í þessum helgum.
 
 
Comments