19. júlí 2011

posted Jul 18, 2011, 4:18 PM by Jón Pétursson   [ updated Jul 20, 2011, 5:22 AM ]
Nóg er búið að dunda síðustu tvær vikur og hefur alveg gleymst að skrá í dagbókina. Rakel kom í bæinn mánudaginn 4. júlí og var hún til skiptis hjá mæðgunum Hollu og Guðrúnu fram að helgi. Holla dundaði við að háþrýstiþvo og mála húsið heima að utan þá vikuna. Helgina 8. - 10. kom Rakel með okkur austur á föstudagsmorguninn en Guðrún og Árni komu keyrandi austan af fjörðum beint í bústaðinn og voru heppin að sleppa yfir brúnna yfir Múlakvísl sem fór í hlaupinu þá um nóttina.
Við byrjuðum laugardagsmorguninn á smalamennsku og var smá hópur tekinn og rúinn. Ekki fannst Rakel leiðinlegt að Gullbrá okkar var nýborin með 2 mórauð lömb, hrút og gimbur.
 
Verið að smala fyrir rúninginn - Gullbrá fremst á myndinni með nýfæddu lömbin, aftan við hana er Súperbotna með hvítt lamb
 
Eftir rúninginn veittum við því eftirtekt að Súperbotna, sem er veturgömul var ennþá lafmóð og mjög slöpp. Við tókum hana því upp í hlöðu til að fylgjast með henni og drapst hún seinna um daginn, hún var auðsjáanlega veik og hafið ekki þolað smölunina. Lambið hennar var líka slappt og fórum við með það niður á Botna þar sem Nína tók að sér að gefa því með heimaalningunum sem þau eru með. Eftir pensilínkúr hresstist lambið og er nú orðið sprækt.
Seinnipartinn renndu krakkarnir og Holla í ána og viti menn það komu 5 á land ágætis fiskar. Nonni rúllaði fyrir Guðlaug á Lækjarbotnum rúmum 40 rúllum á laugardag og rúmum 60 rúllum á sunnudag.
Krakkarnir fóru svo í bæinn á sunnudagsmorguninn og var Holla í rólegheitum í tiltekt og snatti. Við renndum í bæinn á mánudagskvöldi með viðkomu í Votumýri með bleikju fyrir Kollu og Gunna.
Á þriðjudagsmorguninn vaknaði Holla eldsnemma og keyrði krakkana út á Keflavíkurvöll, en þau voru á leið til Ungverjalands í heimsókn til foreldra Árna þeirra Sissu og Gissurar og ætla að vera þar í mánuð. Seinnipartinn var rennt aftur í sveitina með viðkomu á Laugarvatni í Fontana og eftir eftirlitstúr hjá Nonna renndum við fyrir vatnið og komum við í Efsta-Dal hjá Björgu náfrænku Hollu og Bjössa en þau hjón reka ferðaþjónustu, hestaleigu, eru í hrossarækt og reka með kúabú. Það var mjög gaman að skoða hjá þeim, allt svo snyrtilegt alveg til fyrirmyndar.
 
Við skoðuðum myndarlegan tveggja vetra Kráksson sem hjónin í Efsta-Dal eiga, klárinn er fremst á myndinni og Efsti-Dalur er í baksýn
 
Restin af vikunni fór í snatt og snúninga og gera heyvinnslutækin klár fyrir heyskapinn. Á föstudaginn fórum við aftur í bæinn þar sem Nonni þurfti að mæta á fund um morguninn og eftir hádegi renndum við austur aftur með viðkomu í Nátthaga í Ölfusi og keyptum okkur perutré svona sem smá tilraun og rautt og hvítt rifs. Perutréð er yrki sem heitir Pyrus Aune (perutré Aune) sem er finnskt hérðasyrki sem vex á svæðum 1-4 í Finnlandi. Það er sagt gefa miðlungsstóra, bragðgóða, gulgræna og ávala peru með slóroða. Þægilegt sætt bragð og nýtist sem borðaldin og í matvinnslu. Tréð er snemmbært og sjálffrjótt og þroskast í september. Rifsið er yrki sem heitir "Jonkheer van Tetz" og á að gefa gómsæt ber.
Við komum svo líka við í Holtsmúla 4 hjá Gesti og Guffu og kíktum á sökkulinn undir nýja húsið sem þau voru að slá upp.
Fanney og Sverrir komu um helgina í smá heimsókn og hjálpuðu þau Hollu við að gróðursetja perutréð og rifsið og þær mæðgur hjálpuðust líka að þegar Guðlaugur kom og örmerkti Púmbu hennar Stínu sem er undan Bibbu og Kóral og svo var trippunum sleppt í hagann.
 
Perutréð komið niður á sólríkum stað í góðu skjóli fyirr öllum áttum
 
Á laugardaginn rúllaði Nonni rúmum 90 rúllum fyrir Guðmund og Lóu í Heysholti sem er svipaður heyfengur hjá þeim og í fyrra. Á sunnudaginn rúllaði hann svo rúmar fjörutíu rúllur á Vindási en þar var bara búið að slá Háabólið kringum bæinn, seinna um daginn var meira slegið sem bundið verður í vikunni.
Okkur var boðið í grill á sunnudagskvöldinu á Vindási og fórum við svo snemma á mánudagsmorgun í bæinn og beint í vinnu, fríið búið í bili...
 
Comments