Fimmtudagurinn hjá Hollu fór í að ganga frá búslóð Jónínu heitinnar mömmu Nonna og ýmsar útréttingar ásamt Siggu systur hans en Nonni var í sveitinni að undirbúa smölun og rúning. M.a. var gamla fjórhjólið lagað en það höfðu brotnað tveir stýrisendar í því í smöluninni í fyrra í skakinu í stórþýfinu við Laugaholtið.
Gummi klár í smölunina á '87 módelinu af Polaris Trail Boss sem við höfum verið að gera upp í rólegheitunum
Föstudagurinn fór að mestu í smalamennsku á Vindási og voru úthagarnir smalaðir ásamt Minnivallahaganum og féð allt rekið inn á tún. Um kvöldið komu Árni, Rakel, Steinþór bróðir Árna og Pétur, nýkominn með bílprófið, austur - til hamingju með það Pétur! Og hann fékk að keyra frá Selfossi ekki ósáttur með það karlinn.
Laugardagurinn var tekinn snemma og smalað inn í fjárhús, hópur fólks var mættur í rúninginn. Á svæðinu voru ásamt okkar hóp Bragi, Magga, Gummi, Stína, Trausti og Aníta Eva, Sverrir, Villý og börn, Gulli pípari með dóttur og tengdason.
Stebbi vinur Hollu ásamt fjölskyldu kíkti við og krakkarnir fengu smá útrás í fénu áður en þau héldu til Víkur. Rakel hjálpaði til við að draga féð ásamt hinum krökkunum og fannst frekar gaman. Steinþór bróðir Árna var að koma að rúningi í fyrsta skipti og stóð hann sig eins og hetja en var heldur lúinn þegar þau lögðu svo í hann austur á Egilsstaði seinnipartinn. Guðrún var að keppa í eyjum og kipptu þau henni upp í Landeyjarhöfn og héldu svo alla leið á Egilsstaði. Eftir rúninginn var öllu fénu rennt í gegnum rennuna góðu og gefið ormalyf, þetta árið var sett ormalyf í allt féð og gekk það eins og í sögu. Nonni fór ásamt systkinum sínum á fund á Fellsmúla með séra Halldóru um eitt og annað viðkomandi jarðaför mömmu þeirra og á eftir komu Sigga og Óli inní bústað og borðuðu með okkur og gistu en Stína og Þröstur fóru yfir á Flúðir í brúðkaup. Holla skellti lambalæri í ofninn og sauð nýuppteknar kartöflur og grænmeti - bara snilld - og í desert var kókosbollubomba.
Sunnudagurinn fór að mestu í slökun eftir erfiða undanfarandi daga - mætti halda að gömlu væru í lélegu formi HA HA HA þvílíkar harðsperrur. Á sunnudagskvöldið fóru Vindásbændur að slá völlinn og fór Nonni austur á þriðjudaginn og rúllaði, það heldur betur meira á núna en í fyrra þegar við fengum bara 11 rúllur en það komu 65 núna - ætli askan eigi ekki hlut að máli þar?
Þá var bara að rúlla í bæinn og vinna...
|