18. október 2010

posted Oct 18, 2010, 1:05 PM by Jón Pétursson

Föstudagur, á leiðinni austur byrjuðum við á að sækja traktors-loftpressu í Hafnafjörð sem Gulli og Nonni höfðu fest kaup á í vikunni. Þegar austur var komið komum við við á Lækjarbotnum með pressuna og Nonni fór síðan ásamt Gulla á stjórnarfund í hitaveitufélaginu en Holla og Pétur héldu áfram í bústaðinn.

Laugardagurinn var tekin rólega framanaf og kúrt fram undir hádegi en eftir hádegið fór Pétur að vinna í Benzanum en Nonni og Holla ásamt Gumma á Vindási fóru á Hvolsvöll með tvo hrúta í hestakerrunni en annar hafði verið boðaður á fjársýninguna í reiðhöllinni í Miðkrika en hinn fékk að prýða sölubás meðan á sýningunni stóð.
 
Séð yfir höllina í Miðkrika þar sem sýningargripirnir voru - hin myndin sýnir verðlaunagripina sem voru viðeigandi og ansi skemmtilegir 
 

Við vorum hæstánægð með sýningagripinn en hann endaði í áttunda sæti yfir bestu lambhrúta í Rangárþingi. Frúin linnti svo ekki látum fyrr en keyptur var lambhrútur frá Berjanesi - móflekkóttur, krúnóttur, blesóttur og arnhöfðóttur stigaður í 83 stig, þar sem hann er tvílitur er hann dreginn niður fyrir ull, en er með mjög gott bak og ágætis læri. Bak við hrútinn standa mjólkurmiklar ær og mikil frjósemi bindum við miklar vonir við gripinn - sagan segir að amma hans hafi skilað fjórlembingum eitt árið með samanlagðan fallþunga 70 kg sem er hreint með ólíkindum.

 
Sýningarhrúturinn er vinstra megin á myndinni en hrúturinn sem við keyptum frá Berjanesi er hægra megin
 

Sunnudagurinn var rólegur hjá frúnni smá tiltekt og svo var prjónað og prjónað, Pétur og Nonni fóru yfir á Vinás og kláruðu að sprauta fylligrunninum á Benzann og Pétur pússaði það sem grunnað var síðast eins og óður maður. Seinnipartinn var rúllað á Lækjarbotna og Pétur fékk far í bæinn með Þórhalli. Pressan var hengd aftan í traktor, sett í gang og prófuð og svínvirkaði. Vindáshjónin buðu okkur svo í læri uppá gamla móðinn ekki slæmt. Síðan var tiltekt í bústaðnum og farið í bæinn. 

 

>>>allar dagbókarfærslur

 

Comments