18. október 2009

posted Oct 18, 2009, 3:55 PM by Jón Pétursson
Síðasta vika fór að mestu í undirbúning fyrir fimmtugsafmæli Nonna - já þetta er bara búið hjá karlinum.
 
Gamli gamli - orðinn fimmtugur 
 
Í vikunni fórum við meðal annars langt með að klára sólpallinn á bakvið hús í Hálsaselinu, framkvæmd sem hefur staðið til að fara í síðustu 10 árin eða svo, en góðir hlutir gerast hægt. Það skal viðkennt að mest af okkar orku fer í framkvæmdir í sveitinni en Holla er séð að nota tækifæri eins og þennan viðburð til að knýja fram framkvæmdir í bænum...
 
Á laugardag var svo veisla fyrir fjölskylduna og nánustu vini og heiðruðu m.a. Sigga og Jan okkur með því að koma alla leið frá Skotlandi.
Tvær stórgjafir litu dagsins ljós í afmælinu, sómafólkið á Lækjarbotnum gaf Nonna afnot af fyrstu verðlaunahryssunni Vímu frá Lækjarbotnum sem er undan Huga frá Hafsteinsstöðum og Heklu Mjöll frá Lækjarbotnum (sem hefur gefið fimm fyrstu veðlaunahryssur) þannig að nú verður úr vöndu að ráða að finna rétta stóðhestinn sumarið - Orri frá Þúfu verður eðlilega fyrsta val Nonna ef hann kemur henni undir hann.
Skemmtileg saga er á bakvið gjöfina og hún er þannig að Billi gamli bóndinn á Lækjarbotnum og Nonni voru að skoða stóðið á Lækjarbotnum og renndi Nonni hýru auga á rautt trippi sem Billi sagði að væri falt fyrir 50 þús, seinna kom svo í ljós að sá gamli hafði villst á hestum og þarna var komin Víma sem Þórhallur á Lækjarbotnum á og fór á Landsmóti á Vindheimamelum 2006 í fyrstu verðlaun með 8,18. Í sárabót samdist Guðlaugi og Nonna að hann fengi 30 folaldið undan merinni en núna þegar menn áttuðu sig á aldri Nonna var ákveðið að flýta viðburðinum.
 
Víma frá Lækjarbotnum, hér með folald undan Stála frá Kjarri 
 
Önnur stórgjöf kom frá systkinum Nonna, þeim Siggu, Óla og Stínu en þau gáfu glæsilega mynd af Patta gamla sem Óli hafði málað. Þau sömdu og sungu reynar líka heilmikinn brag um karlinn. Þar var mest fjallað um sveitina, bíla og traktora - skrýtið!
 
Nonni og Patti áttu margar góðar stundir saman, en þeir voru samferða þau 14 ár sem hann lifði og þar til hann dó 1999.
 
Á sunnudaginn, hinn eiginlega afmælisdag fóru Nonni og Holla austur til að smala inn kindunum og taka frá lömb sem stendur til að ómmæla og stiga á miðvikudag. Magga og Bragi voru reyndar búin að ýta kindunum inn í fjárhús þegar við komum austur og tókum við 5 gimbrar og einn hrút og fórum með niður að Lækjarbotnum þar sem mælingin verður framkvæmd. Þetta eru gimbrarnar tvær og botnótti hrúturinn sem komu úr sæðingunum á Vindási og að auki þrjár gimbrar sem við settum með svona til gamans.
 
 
Comments