18. mars 2012

posted Mar 18, 2012, 3:46 PM by Jón Pétursson   [ updated Mar 19, 2012, 4:43 AM ]
Enn snjóar í sveitinni skítakuldi rok og skafrenningur alla helgina.
Þegar við komum austur seinnipart á föstudag mættum við bormönnum frá Ræktó sem voru að koma frá Vindási, þeir voru búnir að stilla upp og bora eina níu metra við fjárhúsið og koma aftur eftir helgina og halda áfram að bora - með sama gangi tekur borunin ekki nema einn eða tvo daga.

 
Borinn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða kominn á Vindás

Við fórum beint í það á föstudag að úrbeina, hakka og pakka nauti sem við keyptum með Vindásbændum frá Hannesi í Þúfu og náðum að klára það þá um kvöldið.

 
Holla og Gummi að úrbeina frampartinn og Magga sker niður í hakkið

Á laugardagsmorgun fórum við ásamt Gulla og Nínu í vísindaferð með ræktunarfélagi Andvara á nokkur hrossaræktarbú á Suðurlandi. Við hittum á hópinn, sem var óvenju fjölmennur eða um 40 manns, í Hólaborg í Flóa sem er sjúkra- og þrekþjálfunarstöð fyrir hross. Glæsileg aðstaða eins og von var á hjá Ingimari Baldvins.

 
Í Hólaborg er hringekja, vatnshlaupabretti, víbrandi gólf og hitaklefar fyrir hross

Næst var haldið í Arabæ sem er aðeins austar við Þjórsánna. Þar er rekin sölu- og þjálfunarmiðstöð og eru þeir félagar Sævar og Hallgrímur með ein 70 hross á járnum.

 
Sævar og Hallgrímur í Arabæ lögðu á tvo gæðinga í rokinu og kuldanum

Næst var farið í Hestheima í hádegismat og kíkt á hrossin hjá Marteini, maturinn var góður en ansi var nú kalt í skemmunni við borðhaldið.
Frá Hestheimum var keyrt niður í Sandhólaferju og kíkt á dýralækningarmiðstöð Guðmars

 
Guðmar er frumkvöðull í sæðingum og fósturvísaflutningum á hrossum á Íslandi og fræddi menn um starfsemi sína

Að lokum var farið í Krók í Ásahreppi þar sem Göran Montan og fjölskylda hans í Margretarhof í Svíþjóð eru að byggja. Þau eru búin að breyta reiðhöllinni í hesthús og byggja nýja stærri reiðhöll, endurrækta tún, gera upp gömlu húsin og fl.

Hesthúsið í Króki er glæsilegt

Á sunnudag var leiðindaveður, skafrenningur og kuldi og fórum við í bæinn seinnipartinn.

Comments